Landsnet kynnir matslýsingu vegna umhverfismats kerfisáætlunar


30.10.2013

Framkvæmd

Landsnet hefur ákveðið að vinna umhverfismat kerfisáætlunar 2014-2023 samhliða mótun áætlunarinnar. Ákvörðunin byggir á úrskurði umhverfis- og auðlindaráðherra frá 21. maí 2013 og geta hagsmunaðilar gert athugasemdir við matslýsingu næstu fjórar vikurnar.

Megintilgangur matsvinnunnar er að tryggja að tekið verði tillit til umhverfisjónarmiða við ákvarðanir um áætlunina, draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif og upplýsa um hugsanlegar afleiðingar af framkvæmd kerfisáætlunarinnar á umhverfið.
Umhverfismatið tvískipt

Þar sem kerfisáætlunin er bæði stefnumótandi áætlun um framtíð flutningskerfis Landsnets og áætlun um einstök verkefni verður umhverfismatið tvískipt. Annars vegar verður fjallað um áhrif framtíðaruppbyggingar meginflutningskerfisins á umhverfið og hins vegar verður fjallað um umhverfisáhrif helstu framkvæmda sem í áætluninni felast.. Matsskyldar framkvæmdir Landsnets fara eftir sem áður í gegnum mat á umhverfisáhrifum.

Matsvinnan fellst m.a. í að skoða helstu áhrifaþætti sem felast í framkvæmd áætlunarinnar, skilgreina umhverfisþætti sem kunna að verða fyrir áhrifum og leggja mat á umfang og vægi áhrifa. Grundvöllur matsvinnu verður samanburður valkosta sem koma til í mótunarferli kerfisáætlunar, s.s. um spennustig, leiðarval og kerfisútfærslur (sjá mynd 1). 

 

Mynd 1:  Valkostir til skoðunar við mótun kerfisáætlunar

 

Öll helstu gögn á heimasíðu Landsnets
Ákvörðun Landsnets um að umhverfismeta kerfisáætlunina byggir á úrskurði umhverfis- og auðlindaráðherra frá 21. maí 2013 um að kerfisáætlun fyrirtækisins falli undir lög um umhverfismat áætlana.

Kynningar og samráð vegna umhverfismatsvinnu kerfisáætlunar verður í samræmi við lög nr. 106/2005 um umhverfismat áætlana og mun Landsnet birta öll helstu gögn á heimasíðu fyrirtækisins. Hér má nálgast Matslýsingu fyrir Kerfisáætlun 2014-2023

Matslýsingin er nú aðgengileg á heimasíðunni og þeir sem vilja leggja fram athugasemdir eða ábendingar geta sent þær á póstfangið landsnet@landsnet.is fyrir 30. nóvember 2013. Í kjölfarið verður birt yfirlit yfir athugasemdir og ábendingar sem berast og hvernig þær nýtast við gerð umhverfisskýrslunnar. 

 

 

 

Mynd 2: Meginflutningskerfi Landsnets 2014 

 

Nánari upplýsingar veitir:
Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, s. 893 4843.
gudmunduri@landsnet.is

 

 

 

 

 

Aftur í allar fréttir