Landsnet leitar leiða til að draga úr kostnaði við jarðstrengslagnir


03.03.2014

Framkvæmd

Landsnet hefur ýtt úr vör rannsóknarverkefni til að greina hagkvæmustu kosti við val á jarðstrengjum og lagningu þeirra og frágang, með tilliti til flutningsgetu, áreiðanleika, umhverfis og kostnaðar. Lykilráðgjafar eru frá danska flutningsfyrirtækinu Energinet.dk, StellaCable í Danmörku og Háskólanum í Reykjavík.

Jarðstrengslagnir í flutningskerfi Landsnets ná nú yfir 200 km og hefur tæplega helmingur þeirra verið lagður á síðustu 10 árum. Þar af eru jarðstrengir á 132 kV spennu um 60 km en í heildina eru um 90 km af 132 kv strengjum í flutningskerfinu.


Frekari jarðstrengslagnir eru áætlaðar á næstu árum. Þar sem slíkar framkvæmdir eru mjög kostnaðarsamar vill Landsnet leita leiða til að reyna að draga úr kostnaði við þær og er rannsóknarverkefnið liður í þeirri viðleitni.

Auk lykilráðgjafanna frá Energinet.dk, StellaCable og HR taka þátt í verkefninu sérfræðingar frá verkfræðistofunum Eflu, Mannviti og Verkís, sem allir hafa reynslu af jarðstrengsverkefnum, ásamt starfsfólki Landsnets. Verkefni hópsins er m.a. að:

  • Skilgreina hagkvæmasta val á strenggerð, -þversniði, -lagningu og varmaleiðandi efni miðað við mismunandi flutningsgetu.
  • Kanna möguleika á að lækka varmaviðnám í fylliefni með strengjum.
  • Fjalla um mismunandi aðferðir við lagningu jarðstrengja, reynslu annarra af þeim og greina kosti og galla fyrir mismunandi aðstæður á Íslandi.
  • Greina möguleika á að draga úr kostnaði við strenglagnir, s.s. með lágmörkun slóða og fækkun á tengingum.
  • Endurmeta kostnað jarðstrengjaverkefna (stofnkostnað og líftímakostnað) við mismunandi aðstæður og flutningsgetu.

Áætlað er að verkefnið taki um hálft ár.

Meðfylgjandi mynd er tekin á fyrsta fundi verkefnishópsins þar sem farið var sérstaklega yfir reynslu danska flutningsfyrirtækisins Energinet.dk af jarðstrengsframkvæmdum.

Aftur í allar fréttir