Landsnet og Etix Everywhere Borealis skrifa undir viljayfirlýsingu um aukningu flutnings til gagnaversins


19.07.2021

Framkvæmd

Landsnet og Etix Borealis, sem rekur gagnaver á Blönduósi hafa undirritað viljayfirlýsingu um aukinn flutning á raforku til gagnaversins.

Mun aukningin fara fram í áföngum, þar sem í fyrsta áfanga verður nýtt svokallað snjallnet (smartgrid) til að auka flutninginn og tryggja rekstraröryggi flutningskerfisins.

Snjallnet er er samheiti yfir tækninýjungar sem nýta fjarskipta-, stýri- og upplýsingatækni til að tryggja sem öruggasta afhendingu rafmagns og hámarka jafnframt nýtingu raforkukerfisins. Með snjalltækni er notaður háþróaður tæknibúnaður til að bregðast við breytingum í orkuflutningum með sjálfvirkum hætti með gagnvirkum stýringum og háþróuðum varnarkerfum. Þetta gerir kerfið betur í stakk búið að takast á við breytingar og sveigjanlega notkun eða framleiðslu. Með notkun snjalltækninnar er mögulegt að nýta mun betur mannvirki raforkukerfisins sem kemur notendum til góða í lægri flutningsgjöldum til lengri tíma. Í þessu verkefni tekur Landsnet nýtt skref í nýtingu þessarar tækni sem mun verða í fremstu röð meðal raforkuflutningsfyrirtækja í heiminum.

Etix Borealis rekur sjálfbært gagnaver á heimsmælikvarða, með lágmarks kolefnisfótspori. Það er gert með því að tengjast endurnýjanlegri orku í gegnum flutningskerfi raforku á Íslandi. Öflugt flutningskerfi tryggir hátt afhendingaröryggi og þannig má lágmarka notkun varaflgjafa sem eru keyrðir með mengandi orkugjöfum. Markmið Etix Borealis og Landsnets fara því einstaklega vel saman þegar kemur að nýtingu snjalltækni við afhendingu rafmagns á áreiðanlegan máta.

Guðmundur I. Ásmundsson, forstjóri Landsnets:
"Það er ánægjulegt að geta tekið þátt í því að gagnaver Etix á Blönduósi vaxi áfram og við hlökkum til samstarfsins, sem hefur verið ákaflega farsælt hingað til. Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að geta boðið flutning á raforku með snjöllum hátæknilausnum, sem þróaðar eru með Etix, báðum aðilum til hagsbóta"

Björn Brynjúlfsson, forstjóri Etix Everywhere Borealis:
"Það er ánægjulegt að geta nýtt snjallnet til að bæta nýtingu flutningskerfisins og þannig auka rýmd gagnaversins og sjálfbærni þess. Ísland er góður staður fyrir aðila sem leita eftir öruggum og umhverfisvænum gagnaverslausnum. Við teljum okkur vera að mæta þessum kröfum með gagnaverinu á Blönduósi, en reksturinn hefur gengið vonum framar frá opnun árið 2018. Við hlökkum til að geta mætt vaxandi eftirspurn eftir umhverfisvænum gagnaverslausnum með þessari aukningu."

Aftur í allar fréttir