Landsnet og hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri hafa gert með sér samkomulag um þróun á nýrri hugbúnaðarlausn sem gerir Landsneti kleift að selja umframraforku á raforkuneti sínu í rauntíma.
Landsnet og hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri hafa gert með sér samkomulag um þróun á nýrri hugbúnaðarlausn sem gerir Landsneti kleift að selja umframraforku á raforkuneti sínu í rauntíma.
„Það er nauðsynlegt fyrir okkur að framleiðsla og notkun raforku sé í jafnvægi þar sem erfitt er að geyma mikið magn raforku. Framboð og eftirspurn í raforkukerfinu er breytileg frá einni viku til annarrar og til að hafa jafnvægi í kerfinu höldum við úti svokölluðum reglunaraflsmarkaði þar sem framleiðendur og kaupendur geta samið um verð á raforku. Þannig náum við að nýta raforkuna enn betur og skapa jafnvægi í raforkukerfinu,“ segir Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Kerfisstjórnunarsviðs Landsnets.
Hugbúnaðarlausnin er unnin í nánu samstarfi starfsfólks Landsnets og Kolibri í þverfaglegu teymi stjórnenda, sérfræðinga, hönnuða, forritara og teymisþjálfara. Hugbúnaðurinn heldur utan um fyrrnefndan raforkumarkað og gerir starfsfólki Landsnets kleift að hafa yfirumsjón með honum.
„Við hlökkum til samstarfsins við Landsnet og það hefur reynst okkur vel að leysa verkefni með því að stilla upp þverfaglegu teymi þar sem starfsfólk beggja fyrirtækja vinnur náið saman. Flækjustig verkefnisins er hátt og miklar kröfur gerðar um gæði og uppitíma en jafnframt er virkilega spennandi og gefandi fyrir okkur að stuðla að betri nýtingu á þeirri dýrmætu raforku sem við Íslendingar erum að framleiða,“ segir Pétur Orri Sæmundsen, stjórnarformaðuri Kolibri.
Landsnet annast flutning raforku á Íslandi og stýrir uppbyggingu flutningskerfisins. Landsnet stýrir jafnframt raforkukerfi landsins og tengir þannig saman framleiðendur og notendur raforku. Landsnet leggur ríka áherslu á þjónustuhugsun og að vera öflugur og eftirsóknarverður vinnustaður þar sem umhyggja fyrir þörfum viðskiptavina og starfsfólks er í fyrirrúmi.
Kolibri hjálpar íslenskum fyrirtækjum að þróa stafrænar lausnir með þverfaglegum teymum. Hjá Kolibri starfa reynslumiklir og ástríðufullir hönnuðir, forritarar og teymisþjálfarar í viðskiptasamböndum þar sem fyrirtækið hjálpar viðskiptavinum sínum að tengja saman stjórnun, stefnumótun og hugbúnaðarþróun.
Mynd: Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Pétur Orri Sæmundsen, stjórnarformaður Kolibri