Landsnet tekur lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum


17.09.2025

Framkvæmd

Landsnet og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) hafa skrifað undir samning um lán að fjárhæð 35 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir um 4,2 milljörðum króna.

Láninu er ætlað að fjármagna lagningu jarðstrengs á milli Akureyrar og Dalvíkur með það að markmiði að styrkja flutningskerfið á því svæði svo og á Suðurlandi, þar sem unnið er að bættum tengingum á milli Hellu og Landeyja og nýrra sæstrengja frá Landeyjum yfir til Vestmannaeyja.  

Framkvæmdirnar munu styrkja núverandi flutningskerfi og auka flutningsgetu á báðum svæðunum ásamt því að auka orkuöryggi fyrir íbúa og atvinnulíf. 

Mynd: Jeanette Vitasp, yfirmaður lánamála hjá Norræna fjárfestingarbankanum, og Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets, handsala samninginn við undirskrift.

 

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála og árangurs:  

„Við hjá Landsneti leggjum mikla áherslu á að styrkja flutningskerfi raforku á þann hátt sem nýtist bæði almenningi og atvinnulífi á þeim svæðum sem um ræðir. Öflugra kerfi gerir okkur kleift að mæta nýjum áskorunum í orkuumhverfinu, nýta betur auðlindir og auka öryggi í orkuafhendingu. Fjármögnunin sem hér um ræðir tengist verkefnum sem styrkja flutningskerfið á Norður- og Suðurlandi og tengjast sérstaklega afhendingaröryggi á þeim svæðum. 

Með nýjum sæstrengjum til Vestmannaeyja eykst flutningsgeta kerfisins þangað og þannig er stutt við frekari þróun atvinnulífs á svæðinu. Þessi verkefni eru einnig mikilvægir hlekkir í styrkingu og uppbyggingu kerfisins í heild sem styður við aukið orkuöryggi og öruggari flutning raforku á milli landshluta. Í framkvæmdum Landsnets er horft til þess að bæta nýtingu orkuauðlinda, minnka losun sem tengist flutningi raforku, sýna ábyrgt verklag í umhverfismálum og styðja við atvinnulíf og samfélög á þeim svæðum sem um ræðir. 

Norræni fjárfestingarbankinn hefur verið traustur samstarfsaðili okkar í mörg ár. Það er ánægjulegt að samstarfið endurspegli bæði okkar markmið og sjálfbærniviðmið bankans í loftslagsmálum. Samningurinn sem nú hefur verið undirritaður er sterkt merki um það traust sem bankinn ber til Landsnets og þeirra áætlana sem við höfum sett okkur í umhverfis- og loftslagsmálum.“ 

Aftur í allar fréttir