Landsnet til liðs við áhugavert nýsköpunarverkefni


11.09.2015

Framkvæmd

Landsnet hefur gerst bakhjarl nýsköpunarverkefnis POLG (Power On-Line Generator) og ætlar að leggja frekari þróun þess lið með það að markmiði að þróa vöru fyrir alþjóðlegan markað.

Markmiðið er að búa til vöru sem eykur rekstraröryggi flutnings- og dreifikerfa raforku, einfaldar eftirlit og viðhaldsvinnu, eykur öryggi starfsfólks og dregur úr slysahættu.
Það er fyrirtækið Laki ehf., rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtækið á sviði umhverfisvænna orkulausna, sem hefur þróað POLG-verkefnið sem byggist á því að nýta rafsegulsvið háspennulína til raforkuframleiðslu. Um afar vistvæna lausn er að ræða sem er ætlað að skila nægu afli til að aflfæða, eða knýja áfram, hverskyns rafbúnað, svo sem fjarskipta- og eftirlitsbúnað.

Að baki Laka ehf. standa ráðgjafafyrirtækin Mannvit hf. og Rásmark ehf. Með samkomulagi sem Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Sigurjón Magnússon, stjórnarformaður Laka, undirrituðu á dögunum hefur Landsnet gengið formlega til liðs við Laka. Ætla félögin að vinna í sameiningu að áframhaldandi þróun POLG-lausnarinnar fyrir alþjóðamarkað.
Aftur í allar fréttir