Mælum með innleiðingu þriðja orkupakkans


03.05.2019

Framkvæmd

Landsnet hefur skilað inn umsögn vegna tillögu til þingsályktunar um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, þskj. 1237 á 777 sem snýr að innleiðingu á þriðja orkupakkanum.

Markmiðið að tryggja skilvirkan orkumarkað á Íslandi

Með lögum um stofnun Landsnets var fyrirtækinu falið það hlutverk að annast flutning raforku, kerfisstjórnun og uppbyggingu flutningskerfsins samkvæmt ákvæðum íslenskra raforkulaga sem byggja á markaðslöggjöf sem þegar er hluti af  EES- samningnum. Að vera í alþjóðlegu lagaumhverfi skapar margvíslegt hagræði fyrir Landsnet en við höfum frá upphafi verið aðili að Evrópuneti raforkuflutningskerfisstjóra (European Network of Transmission System Operators for Electricity eða ENTSO-E). Þótt stór hluti starfsemi ENTSO-E varði ýmsa þætti er lúta að samtengingum milli landa og rekstri samtengdra flutningskerfa og snerti þannig ekki beint núverandi starfsemi Landsnets, þá hefur þátttaka í starfsemi ENTSO-E haft töluverða þýðingu og skilaði okkur þátttöku m.a. í vinnu við gerð sameiginlegra netmála. Þannig hefur Landsnet í gegnum samstarfið átt greiðan aðgang að öllum helstu sérfræðingum Evrópu á sviði raforkuflutningsmála og hefur getað nýtt sér þá gríðarlegu þróun sem er á fullkomnasta raforkumarkaði í heimi.  Það er óraunhæft að ætla að hægt sé að byggja upp þessa þekkingu á Íslandi.

Miklar breytingar framundan á íslenska orkumarkaðnum

Á sama hátt og í öðrum löndum eru að verða viðamiklar breytingar á orkumarkaðinum hér á landi. Orkuframleiðendum fjölgar, fjöldi minni vatnsorkuvera er í undirbúningi sem og vindorkuver.  Það er mikilvægt að jafna stöðu þessara aðila gagnvart núverandi framleiðendum eins og raforkulög gera ráð fyrir og skiptir aðgangur að samkeppnismarkaði þar miklu máli. Fyrir neytendur eru einnig miklar breytingar fyrirsjáanlegar, breytingar sem drifnar eru áfram af orkuskiptum, tækniþróun og viðhorfsbreytingum fyrir hreinum endurnýjanlegum orkugjöfum og ábyrgri nýtingu þeirra. Aukin sjálfvirknivæðing mun einfalda neytendum orkuviðskiptin og gera rafbílaeigendum í framtíðinni kleift að hlaða bílana þegar orkuverðið er hagstætt án þess að þurfa að þekkja flókið viðskiptaumhverfið. Nú þegar sjást merki um breytta hegðun þar sem samkeppni á smásölumarkaði er að aukast og með orkuskiptum í samgöngum mun raforka skipta heimilin meira máli.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets :

Fyrir okkur hjá Landsneti skiptir miklu máli að það lagaumhverfi sem við  störfum í endurspegli sem best evrópskt regluverk að teknu tilliti til sérstakra aðstæðna á Íslandi og er það okkar faglega niðurstaða í umsögninni að mæla með því  að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Hér er hægt að nálgast umsögnina.

Aftur í allar fréttir