Metnaðarfull markmið í loftslags- og úrgangsmálum


01.07.2016

Framkvæmd

Landsnet var í hópi þeirra íslensku fyrirtækja sem skuldbundu sig haustið 2015, í aðdraganda 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, til að setja sér markmið í loftslags- og úrgangsmálum og fylgja þeim eftir með aðgerðum.

Hjá Landsneti er unnið eftir stefnu sem leggur áherslu á mikilvægi umhverfisvænna lausna. Með markvissri stjórnun umhverfismála lágmarkar Landsnet áhrif starfseminnar á umhverfið. Fylgst er með umhverfisáhrifum rekstursins og gripið til aðgerða ef þörf krefur. Þannig leggur Landsnet sitt að mörkum til að bæta árangur samfélagsins í umhverfismálum.

Kolefnisspor Landsnets

Kolefnisspor Landsnets árið 2015 var 10.112 tonn af CO2-ígildum. Þar af var bein losun frá starfseminni rúm 6.500 tonn en óbein losun rúm 3.500 tonn. Stærstu þættirnir í kolefnissporinu eru losun brennisteinshexaflúoríðs vegna leka af rafbúnaði, losun vegna orku sem tapast í raforkuflutningskerfinu og losun vegna keyrslu varaaflsstöðva vegna truflana í kerfinu.

Markmiðið er m.a. að losun brennisteinshexaflúoríðs (SF6) verði að hámarki 90 kg  en það samsvarar 2052 tonnum CO2-ígilda á ári og leki af búnaði ekki meiri en 0,1% og losun vegna varaaflskeyrslna verði í lágmarki.

Í úrgangsmálum verður áherslan lögð á að draga úr úrgagni og auka hlutfall flokkaðs sorps en árið 2015 féllu til 9,5 tonn af almennum úrgangi í starfsstöðvum Landsnets eða sem svarar til 87 kg á hvert stöðugildi.

“ Með því að setja okkur þessi markmið viljum við leggja okkar á vogaskálarnar þegar kemur að aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Um leið stuðlum við að því að óæskileg áhrif við uppbyggingu og rekstur raforkukerfisins á umhverfið séu lágmörkuð. Yfirlýsingin um aðgerðir í loftslagsmálum frá því í nóvember og markmiðin sem við höfum sett okkur núna eru mikilvæg skref í þá áttina ” segir Guðmundur I. Ásmundsson forstjóri Landsnets.

Aftur í allar fréttir