Niðurstaða Hæstaréttar breytir forsendum


12.05.2016

Framkvæmd

Meirihluti Hæstaréttar felldi í dag úr gildi stjórnvaldsákvarðanir iðnaðarráðherra frá 24. febrúar 2014 er heimiluðu Landsneti að taka land eignarnámi á fimm jörðum á Reykjanesi vegna byggingar Suðurnesjalínu 2. Niðurstaða dómsins kemur Landsneti á óvart. Hún seinkar brýnum framkvæmdum við uppbyggingu flutningskerfis raforku til Suðurnesja.

Með ákvörðun sinni í dag sneri Hæstiréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2015. Í héraðsdómi voru Landsnet og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sýknuð af öllum kröfum eigenda jarðanna fimm vegna byggingar Suðurnesjalínu 2. Meirihluti Hæstaréttar telur hins vegar vera annmarka á eignarnámsákvörðuninni svo ógildingu varði en tveir dómarar Hæstaréttar töldu að staðfesta ætti niðurstöðu héraðsdóms.

Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar kemur á óvart, þar sem ekki var deilt um nauðsyn þess að styrkja flutningskerfi raforku til Suðurnesja. Landeigendur töldu hins vegar að Landsnet hefði ekki með nægilega rökstuddum hætti sýnt fram á að val á byggingu háspennulínu á 220 kílóvolta (kV) spennu, umfram lagningu jarðstrengs, bryti ekki gegn sjónarmiðum um meðalhóf við eignarnámsákvarðanir.

Kallað eftir nýrri nálgun í Hæstarétti

Niðurstaða Hæstaréttar mun óhjákvæmilega valda seinkunum á brýnum framkvæmdum við uppbyggingu flutningskerfis raforku til Suðurnesja. Landsnet vonar að þær verði ekki langvarandi og leitast verður við að lágmarka það tjón sem af þeim kann að hljótast.

Í eignarnámsákvörðunum ráðherra og í dómum héraðsdóms var talið að samningaviðræður við landeigendur gætu ekki tekið til annarrar framkvæmdar en þeirrar sem framkvæmdaaðili hefði undirbúið í samræmi við lögbundna ferla, s.s. mat á umhverfisáhrifum og skipulagsákvarðanir sveitarfélaga. Með dómi meirihluta Hæstaréttar er horfið frá þeim sjónarmiðum og kallað eftir nýrri nálgun á grundvelli friðhelgi eignarréttar einstaklinga. Með vísan til lögbundinnar skyldu Landsnets – samkvæmt raforkulögum og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína – verður unnið að því að bæta úr þeim annmörkum sem Hæstiréttur telur vera á eignarnámsákvörðuninni.

Öll leyfi til staðar

Suðurnesjalína 2 milli Hafnarfjarðar og Grindavíkurbæjar er 220 kV háspennulína sem hönnuð er fyrir þarfir svæðisins til framtíðar og er ætlað að verða hluti af meginflutningskerfi Landsnets. Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins í áratug og Landsnet hefur lagt ríka áherslu á að kynna verkefnið. Það var fyrst kynnt landeigendum árið 2007, auk þess sem haldnir voru opnir fundir og sérstök heimasíða opnuð til að efla upplýsingagjöf. Öll tilskilin leyfi liggja fyrir, þ.á m. mat á umhverfisáhrifum, samþykktar skipulagsáætlanir, framkvæmdaleyfi sveitarfélaga á svæðinu, sem og leyfi Orkustofnunar. Þrátt fyrir vandaða og ítarlega málsmeðferð hefur öllum ákvörðunum stjórnvalda um leyfi verið vísað til dómstóla og/eða æðra stjórnvalds.

Suðurnesjalína 2 mun í megindráttum fylgja Suðurnesjalínu 1 sem í dag þjónar svæðinu og er rekin á 132 kV spennu. Hún er nú fulllestuð auk þess sem öryggi kerfisins er ófullnægjandi því einungis er um að ræða eina tengingu frá Reykjanesskaganum við 220 kV meginflutningskerfi Landsnets. Hefur það valdið vandkvæðum á svæðinu sem og í öðrum hlutum flutningskerfisins þegar línan hefur farið úr rekstri vegna viðhalds eða truflana. Algjört straumleysi varð t.d. í rúmar tvær klukkustundir þann 6. febrúar 2015. Af öryggisástæðum er því aðkallandi fyrir samfélag og atvinnustarfsemi á Reykjanesskaga að flutningskerfi raforku verði styrkt.

 
Aftur í allar fréttir