Nýir samningar um reglunaraflstryggingu


28.05.2020

Framkvæmd

Landsnet hefur í kjölfar útboðs, samið við HS Orku, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar, um kaup á reglunaraflstryggingu fyrir tímabilið maí - desember 2020.

Landsnet heldur utan um svokallaðan reglunaraflsmarkað en tilgangur hans er að geta mætt ófyrirséðum frávikum í raforkunotkun- og framleiðslu innan hverrar klukkustundar. Raforkusalar geta boðið afl inn á þennan markað sem notað er til að regla og er tilboðum tekið ýmist í uppreglun eða niðurreglun í því magni sem frávikið er á hverri stundu. Landsnet tryggir, með samningum um reglunaraflstryggingu,  lágmarksafl inn á markaðinn; 40 MW til uppreglunar og 40 MW til niðurreglunar, en lágmarks eining tilboða er 1 MW fyrir heila klukkustund eða 1 MWst.

Reglunaraflstrygging er hluti þeirrar kerfisþjónustu sem Landsneti er gert að sinna samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 og í samræmi við reglugerð nr. 513/2013 um kerfisstjórnun. Aðrir þættir sem eru hluti af kerfisþjónustu eru reiðuafl og aðgengi að varaafli.

Heildarkostnaður samninganna þriggja er rúmar 249 milljónir króna sem er um 1,6% hækkun frá sama tímabili í fyrra. Meðalverð hverrar eins megawatta einingar er 522 krónur/MWst. Munur er á verði reglunarafls til uppreglunar annars vegar og niðurreglunar hins vegar og er meðalverð hverrar eins megawatta einingar til uppreglunar 723 krónur/MWst en til niðurreglunar 320 krónur/MWst.

Aftur í allar fréttir