Nýir samningar um reglunaraflstryggingu á grundvelli útboðs


21.05.2019

Framkvæmd

Landsnet hefur í kjölfar útboðs, samið við HS Orku, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar, um kaup á reglunaraflstryggingu fyrir tímabilið maí 2019 - apríl 2020.

Landsnet heldur utan um svokallaðan reglunaraflsmarkað en tilgangur hans er að geta mætt ófyrirséðum frávikum í raforkunotkun- og framleiðslu innan hverrar klukkustundar. Raforkusalar geta boðið afl inn á þennan markað sem notað er til að regla og er tilboðum tekið ýmist í uppreglun eða niðurreglun í því magni sem frávikið er á hverri stundu. Landsnet tryggir, með samningum um reglunaraflstryggingu,  lágmarksafl inn á markaðinn; 40 MW til uppreglunar og 40 MW til niðurreglunar, en lágmarks eining tilboða er 1 MW fyrir heila klukkustund eða 1 MWst. 


Reglunaraflstrygging er hluti þeirrar kerfisþjónustu sem Landsneti er gert að útvega. Aðrir þættir sem eru hluti af kerfisþjónustu eru reiðuafl og aðgengi að varaafli. 


Heildarkostnaður samninganna þriggja er tæpar 370 milljónir sem er um 3% hækkun frá síðasta útboðstímabili. Meðalverð hverrar eins megawatta einingar er 524 krónur/MWst. Munur er á verði reglunarafls til uppreglunar annars vegar og niðurreglunar hins vegar og er meðalverð hverrar eins megawatta einingar til uppreglunar 729 krónur/MWst en til niðurreglunar 319 krónur/MWst.

Verð reglunaraflstryggingar hefur hækkað nokkuð undanfarin ár, eða um 30% á síðustu fimm árum. 

 
Aftur í allar fréttir