Nýr rafstrengur til Vestmannaeyja


28.06.2013

Framkvæmdir standa nú yfir við lagningu nýs sæstrengs til Vestmannaeyja - Vestmannaeyjastreng 3 - og er stefnt að því að klára verkið í júlí og tengja, eða spennusetja hann síðsumars eða í haust.

Framkvæmdir eru þegar hafnar bæði í Landeyjafjöru og í Vestmannaeyjum við lagningu landhluta strengsins og vinna við lagningu strengsins milli Landeyjarfjöru og Gjábakkafjöru í Eyjum er að hefjast. Er áætlað að sá verkhluti taki alls um fjóra daga, ef veður helst gott.

Nýi sæstrengurinn verður tæplega 13 km langur, jarðstrengurinn frá Landeyjafjöru að spennistöð við Rimakot verður um 3,5 km langur og jarðstrengurinn úr Gjábakkafjöru í Heimaey að tengivirki Landsnets verður um kílómetra langur.

Nýi sæstrengurinn er, eins og nafnið gefur til kynna, þriðji sæstrengurinn sem lagður er til Vestmannaeyja. Hann leysir af hólmi Vestmannaeyjastreng 2 sem er illa farinn og ótraustur en Vestmannaeyjastrengur 1, sem lagður var 1962, verður áfram í notkun. Til að byrja með mun nýi strengurinn verða tengdur á 33 kV spennu, eins og núverandi strengir, en hann getur flutt allt að 66 kV spennu og því mögulegt að auka rafmagnsflutninga töluvert til Eyja.

Áætlaður heildarkostnaður Landsnets við lagningu Vestmannaeyjastrengs 3 er um 1,6 milljarðar króna.

Aftur í allar fréttir