Iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, spennusetti í dag Vestmannaeyjastreng 3 en aðeins er rúmt ár frá því ákveðið var að flýta strenglögninni til að tryggja orkuöryggi Vestmannaeyja til næstu framtíðar. Mun slíkur framkvæmdahraði við lagningu sæstrengs vera óþekktur í heiminum. Upplýst var við athöfnina í dag að þörf væri fyrir enn annan sæstreng til Eyja innan næsta áratugar og væri undirbúningur þess verkefnis þegar hafinn hjá Landsneti.
Nýi sæstrengurinn leysir af hólmi Vestmannaeyjastreng 2 sem var orðinn illa farinn og ótraustur. Hann fylgir að mestu sömu leið og Vestmannaeyjastrengur 1, er tæplega 13 kílómetra langur og tengist spennivirkjum Landsnets á Landeyjasandi og í Eyjum með 3,5 og 1,0 kílómetra löngum jarðstrengjum. Til að byrja með er Vestmannaeyjastrengur 3 rekinn á 33 kV spennu en hann er gerður fyrir allt að 66 kV spennu sem gefur möguleika á enn meiri raforkuflutningi til Eyja í framtíðinni. Heildarkostnaður við verkefnið er um 1,6 milljarðar króna.Þörf á nýjum sæstreng til Eyja innan áratugar
Formleg tenging nýja strengsins fór fram í dag þegar iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, spennusetti hann við athöfn í stjórnstöð HS Veitna í Eyjum. Fram kom hjá Þórði Guðmundssyni, forstjóra Landsnets, að með tilkomu nýja strengsins væri búið að tryggja orkuöryggi Vestmannaeyja til næstu framtíðar auk þess sem hann geri sjávarútvegsfyrirtækjum þar mögulegt að draga úr olíunotkun sem nemur allt að níu þúsund tonnum á ári, sem hafi bæði í för með sé gjaldeyrissparnað og minni losun gróðurhúsaloftegunda. Lagning strengsins væri því mikilvægt skerf í umhverfismálum fyrir íslenskt samfélag.
Þrátt fyrir tilkomu nýja strengsins er talið að styrkja þurfi tengingu Vestmannaeyja við meginflutningskerfið uppi á landi enn frekar til lengri tíma litið. Upplýsti forstjóri Landsnets að fyrirtækið gerði ráð fyrir því að leggja nýjan sæstreng til Eyja innan næsta áratugar – og væri undirbúningur þeirra verkefna þegar hafinn.
Aðeins leið rétt rúmt ár frá því að ákveðið var að ráðast í lagningu Vestmannaeyjastrengs 3 og þar til hann komst í gagnið. Mun það vera einsdæmi í heiminum því alla jafnan tekur tvö til fjögur ár að undirbúa og leggja slíka strengi. Ástæða þess að ráðist var í lagningu nýja strengsins til Eyja af slíkum krafti er sú að Vestmannaeyjastrengur 2 bilaði í september 2012 og varð þá ljóst að hann gæti gefið sig hvenær sem væri og flýta yrði lögn á nýjum streng en undirbúningur verksins var þá þegar hafinn. Stefnan var sett á lagningu nýs strengs sumarið 2013 og naut Landsnet ómetanlegs stuðnings frá systurfyrirtæki sínu í Noregi, Statnett, í útboðsferlinu en hagstæðasta tilboðið í verkið kom frá ABB í Svíþjóð. Voru samningar undirritaðir í ársbyrjun 2013.
Landtaka fyrir opnu Atlantshafi ekki auðveld
Til stóð að lagning strengsins hæfist í júní í sumar en veðurfar var verkefninu einstaklega óhagstætt. Þannig tafðist lagnaskipið Pleijel á leið sinni til landsins og lá í vari við Færeyjar dögum saman áður en það komst til Vestmannaeyja. Ekki tókst að leggja strenginn í fyrstu tilraun í byrjun júlí en smá glufa gafst tæpri viku síðar og var búið að leggja strenginn milli Landeyjasands og Gjábakkafjöru í Eyjum föstudaginn 12. júlí, eftir fjögurra daga snarpa vinnutörn. Byrjað var á því að koma strengnum á land í Landeyjafjöru en það reyndist erfiðara en áætlað hafði verið vegna hliðarstrauma og brims. Fjarstýrður kafbátur var notaður til að leggja niður strenginn samkvæmt fyrirfram ákveðinni lagnaleið og er búið að sannreyna að tekist hafi að mestu að sneiða fram hjá klettum og ójöfnum á sjávarbotninum. Í Gjábakkafjöru er gengið frá strengnum með sérstökum stálhlífum til að verja hann gegn stórgrýti sem veltur um í fjörunni, auk þess sem tvöföld stálvírakápa er á strengnum til að draga úr líkum á samskonar skemmdum og orðið hafa á eldri strengjunum. Nýi strengurinn er jafnframt með heilan álkjarna – sem er nýjung í sæstrengjum – og með honum var lagður ljósleiðari sem getur bæði þjónað fjarskiptum og fylgst með hitastigi strengsins. Með þessu er öryggi gagnaflutninga til Eyja aukið enn frekar samhliða því sem ljósleiðarinn tryggir betri nýtingu tengingarinnar.
Ýmsar hindranir voru í vegi á lagnaleiðinni og margt ekki fyrirséð. Hraundrangurinn Brimnes, milli Gjábakkafjöru og Skansins í Eyjum, var t.d. erfiður hjalli og var gripið til þess ráðs að bora undir hann fyrir strengnum, enda stefna Landsnets að valda eins litlu raski og mögulegt er við framkvæmdir.
Almennt má segja að verkefnið allt hafi verið mjög nýstárlegt og krefjandi fyrir bæði Landsnet og íslenska ráðgjafa og verktaka sem að því komu. Með samvinnu við Statnett í Noregi, ABB í Svíþjóð, HS Veitur og Vestmannaeyjabæ hefur fengist dýrmæt reynsla sem nýtist til framtíðar.
Fjölmargir ráðgjafar og verktakar tóku þátt í verkefninu og lögðu sitt lóð á vogarskálarnar og kappkostuðu að það gengi sem best. Kristallaðist sú samvinna í landtöku sæstrengsins í Gjábakkafjöru í sumar – þar sem starfsmenn úr ýmsum áttum drógu strenginn á land með handafli.