Nýr spennir í tengivirki Landsnets í Fljótsdal


28.05.2014

Framkvæmd

Samsetningu er nú að ljúka á nýjum 100 MVA spenni í tengivirki Landsnets í Fljótsdal og er gert ráð fyrir að hann verði kominn í rekstur í byrjun ágústmánaðar. Nýi spennirinn leysir af hólmi spenni 8 í tengivirkinu og verður hann í framhaldinu sendur til Bretlands í viðgerð.

Gengið var frá kaupum á nýja spenninum, sem er frá ítalska fyrirtækinu Tamini, í upphafi þessa árs, framleiðslan hófst í febrúar og um miðjan maímánuð var honum skipað á land í Reyðarfjarðarhöfn og fluttur beint þaðan að tengivirkinu í Fljótsdal.

Samsetning spennisins hófst í síðustu viku og annast það vandasama verk starfmenn frá Orkuvirki, netrekstri Landsnets og ÞS verktökum. Verkið hefur gengið hratt og vel fyrir sig við góðar aðstæður eystra. Gert er ráð fyrir að samsetningunni ljúki föstudaginn 30. maí nk. og að spennirinn verði kominn í rekstur í tengivirkinu í Fljótsdal í byrjun ágústmánaðar. Kemur hann í staðinn fyrir spenni 8 í stöðinni sem þá verður aftengdur og fluttur til Bretlands í viðgerð.

Myndir frá flutningi nýja spennisins frá Reyðarfirði að Fljótsdalsstöð og frá samsetningu hans.
Aftur í allar fréttir