Nýjasti fjölnota tækjabíll Landsnets fór í jómfrúarferð sína þriðjudaginn 4. mars s.l., þegar unnið var við lagfæringar á Sogslínu 2. Ráðgert er að verkefni þetta taki um þrjá daga.
Tækið reyndist í alla staði mjög vel og ljóst að stórstígar framfarir hafa orðið í viðbragðs- og úrbótagetu starfsmanna Landsnets, þegar bregðast þarf við erfiðum bilunum og krefjandi viðhaldsverkefnum. Að sögn þeirra, sem komu að verkinu, reyndist tækjabíllinn mjög vel og í raun mun betur, en menn þorðu að gera ráð fyrir. Starfsmenn fengu á tilfinninguna, að aukið öryggi sé af notkun bílsins við hífingar miðað við stöðugleika eldri búnaðar. Þá kom í ljós, að bíllinn fer auðveldlega um torfærur og hefur óveruleg áhrif á það land, sem farið er um. Það er því ljóst, að út frá umhverfissjónarmiðum er umtalsverður ávinningur að notkun bílsins.Tækjabíllinn er af gerðinni MAN 35.480 8x8 torfærubíll, sem þýðir, að hann er með drif á öllum hjólunum átta. Á bílum er krani af gerðinni Palfinger 18502SH, sem lyft getur mannkörfu eða búnaði upp í 22m hæð. Þá er á bílnum 80 kN spil, sem er mjög öflugt, þegar draga þarf búnað, varaefni eða önnur farartæki í miklum torfærum. Á bílnum er einnig 10 kVA vararafstöð, sem framleitt getur rafmagn fyrir flest rafmagnstæki, sem notuð eru í línu- og tengivirkjavinnu. Vörupallur er á bílnum, sem bæði er hægt að nota til að flytja varaefni og búnað s.s. vélsleða, sexhjól, snjóbíla og annan búnað, sem nauðsynlegur er í viðhalds- og rekstrarverkefni við flutningskerfið.