Nýr viðbótaráfangi í tengivirki Landsnets á Stuðlum tekinn formlega í notkun


22.01.2014

Framkvæmd

Endurbótum og stækkun á tengivirki Landsnets á Stuðlum við Reyðarfjörð er nýlega lokið og tók bæjarstjóri Fjarðabyggðar virkið formlega í notkun við athöfn í dag. Samhliða hefur Stuðlalína 1 verið spennuhækkuð. Þessar framkvæmdir eru fyrsti áfanginn í aðgerðaráætlun Landsnets til að auka flutningsgetu og áreiðanleika svæðisflutningakerfisins á Austurlandi.

Með þessu er Landsnet að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku hjá fiskimjölsverksmiðjum eystra sem hafa verið að skipta út olíukötlum fyrir rafskautakatla og geta nú nýtt innlenda og umhverfisvæna orku í stað olíu. Voru fulltrúar frá þeim viðstaddir athöfnina í dag ásamt fleiri góðum gestum en það var Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar , sem tók tengivirkið á Stuðlum formlega í notkun.

Stækkun tengivirkisins á Stuðlum er fyrsti áfangi verksins í þeim áformum Landsnets að spennuhækka hringtenginguna Hryggstekkur-Stuðlar-Eskifjörður-Eyvindará. Á Stuðlum er fyrir 66 kV útitengivirki og þar fer einnig fram afhending á raforku til Rarik, sem er dreifingaraðili rafmagns á svæðinu. Nú hefur verið bætt við 132 kV útitengivirki á sömu lóð ásamt tveimur 132/66 kV aflspennum með samanlagðri flutningsgetu um 65 MVA.

Stuðlalína 1 er 132 kV jarðstrengur sem liggur frá tengivirki Landsnets á Hryggstekk í Skriðdal að tengivirkinu á Stuðlum. Strengurinn var tekinn í notkun árið 2005 og rekinn á 66 kV spennu en hefur nú verið spennuhækkaður í 132 kV.

Með þessum aðgerðum eykst bæði flutningsgeta og áreiðanleiki svæðisflutningskerfisins á Austfjörðum en meginflutningskerfið á svæðinu mun áfram búa við takmarkanir, þar sem byggðalínan er fulllestuð.

Framkvæmdir vegna stækkunarinnar á Stuðlum hófust í júní 2013 og var samið við Launafl ehf. um byggingarframkvæmdir og Rafeyri ehf. um uppsetningu á rafbúnaði. Heildarkostnaður við verkefnið er um 400 milljónir króna.

 

Aftur í allar fréttir