Nýtt tengivirki í Ólafsvík


24.06.2019

Framkvæmd

Við höfum unnið að styrkingu flutningskerfisins á Snæfellsnesi undanfarið til að bæta afhendingaröryggi svæðisins.

Hluti af þessum styrkingunum er til að mynda 66 kV jarðstrengur á milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur sem lagður var í fyrra sem og bygging tengivirkis í Grundarfirði, sem tekið var í rekstur í vor.

Lokahluti þessara styrkinga raforkuflutningskerfisins er nýtt tengivirki í Ólafsvík. Ákveðið var að byggja tengivirkið sem færanlegt hús, sett saman hjá verktaka og flutt fullbúið á verkstað. Verkið var boðið út á síðasta ári og hlaut Orkuvirki verkið. Húsið sjálft er 100 fermetrar að stærð og er krosslímt timbur byggt á stálramma og klætt síðan með bárujárni. Fullbúið er húsið um 50 tonn að þyngd.

Við fengum ET ehf. til að flytja húsið fyrir okkur og notast var við flutningavagn sem er sérstaklega gerður fyrir flutning á stórum og þungum hlutum. Á vagninum eru 10 öxlar með hjólum, sem geta öll beygt og síðan er vagninn með stillanlegri hæð sem auðveldar til dæmis þveranir á línum.

Húsið var flutt aðfaranótt 20. júní síðastliðinn og gekk ferðin, sem tók um 12 tíma, mjög vel. Húsið er nú komið á réttan stað á grunn sinn í Ólafsvík.


Aftur í allar fréttir