Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Landsnet og íslenska ríkið af kröfu um að ákvörðun um eignarnám í óskiptu landi Reykjahlíðar vegna Kröflulínu 4 og 5, frá 14. október 2016, yrði felld úr gildi.
Nils Gústavsson framkvæmdastjóri Framkvæmda- og rekstrarsviðs Landsnets:„Það er aldrei gott að þurfa að óska eftir eignarnámi en miklir hagsmunir eru í húfi með tengingu Þeistareykjavirkjunar og iðnaðarsvæðisins á Bakka við flutningskerfið. Niðurstaða dómsins er í samræmi við okkar væntingar og er það von okkar að stefnendur í málinu uni niðurstöðu héraðsdóms.“
Ekki náðust samningar við alla sameigendur að óskiptu landi Reykjahlíðar um framkvæmdina og leitaði Landsnet því að loknu löngu samningaferli eftir heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til eignarnáms. Samningar hafa náðst við 17 af 19 sameigendum Reykjahlíðar sem samtals eiga um 92% eignarhluta jarðarinnar. Sé litið til línuleiðarinnar frá Kröflu til Bakka liggja fyrir samningar við landeigendur um 99% nauðsynlegra landsréttinda, þ.e.a.s. við alla aðra en þá tvo landeigendur að óskiptu landi Reykjahlíðar sem kröfðust ógildingar eignarnámsins.
Þann 22. febrúar 2017 lauk mati á eignarnámsbótum til handa þeim tveimur landeigendum sem að málshöfðuninni stóðu. Í úrskurði sínum ákvað matsnefnd eignarnámsbóta að bætur til landeigenda sem fara með 7,81% eignarhlut að hinu óskipta landi Reykjahlíðar næmu kr. 2.519.392. Boði Landsnets um greiðslu eignarnámsbóta í kjölfar úrskurðar matsnefndarinnar var hafnað.
Kröflulína 4 liggur frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjum. Línan er um 33 km að lengd með 105 möstur, þar af 34 möstur í landi Reykjahlíðar. Vinna við vegslóð og undirstöður mastra er langt komin nema í landi Reykjahlíðar, á um 10 km kafla, þar sem vinna er ekki hafin.
Þeistareykjalína 1 liggur frá Þeistareykjum að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Línan er um 28 km löng með 88 möstur. Vinna við vegslóð og undirstöður er langt komin. Á báðum línuleiðunum er búið að reisa 20 möstur og setja saman önnur 15 sem bíða uppsetningar. Vinna hefst aftur eftir páska en stór hluti efnis í línurnar er kominn til landsins.
Vinna við byggingu þriggja tengivirkja Landsnets vegna framkvæmdanna, við Kröflu, Þeistareyki og á Bakka er í fullum gangi.