Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Landsnet og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið af öllum kröfum fimm landeigenda á Reykjanesi um ógildingu eignarnámsheimilda á jörðum þeirra vegna lagningar Suðurnesjalínu 2.
Landeigendurnir kröfðust þess að eignarnámsákvörðun ráðuneytisins frá 24. febrúar 2014 yrði ógilt sem og heimild Landsnes til að framkvæma eignarnám til ótímabundinna afnota vegna lagningar Suðurnesjalínu 2, 220 kílóvolta (kV) háspennulínu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkurbæjar. Af hálfu stefndu var krafist sýknu þar sem engir verulegir annmarkar hefðu verið á umræddum stjórnvaldsákvörðunum sem leitt gætu til ógildingar þeirra. Féllst héraðsdómur á þau sjónarmið í úrskurði sínum í gær og voru ráðuneytið og Landsnet sýknuð í öllum fimm dómsmálunum en málskostnaður felldur niður.
Suðurnesjalína 2 verður hluti af almennu raforkuflutningskerfi Landsnets og hefur verið unnið að undirbúningi verkefnisins hátt í áratug í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög. Um er að ræða nauðsynlega framkvæmd í almannaþágu og orðið mjög aðkallandi að hefjast handa því eina tenging Reykjanes við meginflutningskerfi Landsnets nú er Suðurnesjalína 1. Bilanir á henni hafa oft valdið straumleysi og vandkvæðum og því brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að raforkuflutningskerfið á svæðinu verði styrkt. Voru þessi sjónarmið staðfest með framangreindum dómum héraðsdóms Reykjavíkur.
Dómar héraðsdóms 30.6.2015:
Frétt á vef Landsnets frá 27. febrúar 2014 um heimild til eignarnáms