Kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2020-2029 hefur verið samþykkt af Orkustofnun og hefur þannig öðlast sess sem núgildandi áætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi.
Helsta nýlundan í nýsamþykktri kerfisáætlun er að í fyrsta skipti er komið á 10 ára heildstæðri áætlun um uppbyggingu nýrrar kynslóðar byggðalínu sem samanstendur af samfelldri tengingu fimm nýrra háspennulína frá Hvalfirði til Austurlands sem liggja mun um Vestur-, Norður- og Austurland.
Línurnar verða byggðar úr stálröramöstrum sem hafa mun meira þol gegn óveðri og seltu en gamla byggðalínan sem er að langmestu leyti byggð úr tréstauramöstrum. Rekstrarspenna nýju byggðalínunnar verður 220 kV í stað 132 kV á gömlu byggðalínunni sem gerir það að verkum að flutningsgeta verður meiri en er í dag. Mun sú breyting styðja við atvinnu- og byggðaþróun í landinu og bæta nýtingu núverandi virkjanamannvirkja og vatnasvæða. Nýja byggðalínan mun einnig þjóna lykilhlutverki í þeirri umbreytingu sem framundan er vegna orkuskipta í landinu en á næstu 30 árum er ætlunin að hætta alveg brennslu jarðefnaeldsneytis og nýta eingöngu innlenda endurnýjanlega orkugjafa.
Kerfisáætluninni fylgir einnig framkvæmdaáætlun sem inniheldur lýsingu á öllum fyrirhuguðum framkvæmdum í flutningskerfinu fram til ársins 2023 og umhverfisskýrsla þar sem umhverfismati kerfisáætlunar eru gerð góð skil.