Orsök straumleysis og spennusveiflna á Austurlandi


08.05.2014

Framkvæmd

Ástæður spennusveiflna í raforkukerfinu á Austurlandi á mánudagskvöld, í kjölfar truflunar í raforkukerfinu á Suðvesturlandi, eru fyrst og fremst raktar til þess að rekstur byggðalínunnar er kominn að þanmörkum. Straumlaust varð víða um tíma eystra og fregnir hafa borist af tjóni á raftækjum.

Upphaf truflunarinnar má rekja til fyrirvaralausrar útleysingar um kl. 22 mánudagskvöldið 5. maí á Suðvesturlandi. Kerfisvarnir Landsnets brugðust strax við og skiptu raforkukerfinu upp í tvær eyjar en við samtengingu kerfisins á ný, um klukkustund síðar, varð skammvinn spennuhækkun á Austur og Norðurlandi sem margir urðu varir við. Samkvæmt upplýsingum frá svæðisvakt RARIK á Austurlandi varð straumlaust í Neskaupstað, á Borgarfirði eystri, Breiðdalsvík, Hornafirði og í sveitum alveg vestur úr að Öræfum. Rétt fyrir miðnætti á mánudagskvöld var flutningskerfið aftur komið í eðlilega rekstur og öllum skerðingum vegna truflana aflétt. Ekki tókst þá að koma Hafnarlínu 1, milli Hafnar í Hornafirði og Hóla, í rekstur því eldingavari á línunni hafði eyðilagst en nú hefur verið skipt um hann og rekstur hennar kominn í eðlilegt horf.

Ástæður truflananna eystra eru fyrst og fremst raktar til þess að byggðalínan er rekin á þanmörkum og þetta er því enn og aftur áminning um mikilvægi þess að styrkja tengingu meginflutningskerfisins milli norður- og suðurhluta landsins.

Almennum notendum, sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna straumleysis eða spennusveiflna, er bent á að vera í sambandi við viðkomandi dreifiveitu.

Aftur í allar fréttir