Örugg endurnýjanleg orka


07.06.2018

Framkvæmd

Ný ítarleg kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2018-2027 kynnt

Ný ítarleg kerfisáætlun fyrir árin 2018-2027 var kynnt í á Grand Hótel í morgun. Kerfisáætlun Landsnets sem að þessu sinni ber heitið Örugg endurnýjanleg orka, skiptist í þrjá meginhluta, langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfisins, framkvæmdaáætlun Landsnets og umhverfisskýrslu. Skiptingunni er ætlað að auka gegnsæi enn frekar.
Megintilgangur kerfisáætlunar er að kynna fyrir hagaðilum framtíðaráform fyrirtækisins um uppbyggingu flutningskerfisins og er leitast við að draga fram skýra framtíðarsýn um þróun flutningskerfis raforku næsta áratuginn og hvernig ætlunin er að bregðast við breytingum á notkun.

Kerfisáætlun 2018–2027 endurspeglar markmið Landsnets um hvernig brugðist er við breytingum í notkun og orkuskiptum þar sem hrein endurnýjanleg orka kemur í stað mengandi orkugjafa.

Sjö línuleiðir eru lagðar til og mismunandi leiðir til samtengingar landshluta kynntar. Þá er í skýrslunni að finna ítarlega greiningu á hagrænum þáttum uppbyggingar í flutningskerfinu.
Áætlaðar framkvæmdir Landsnets á tímabilinu eru taldar nema á bilinu 50 til 65 milljörðum króna og endurgreiðslutími metinn 22 til 64 ár allt eftir því hvaða leiðir verði farnar við uppbygginguna og hvernig notkunin mun þróast.
Í langtímaáætluninni má finna umfjöllun um núverandi flutningskerfi, þar sem farið er yfir þætti eins og flutningsgetu og afhendingaröryggi, ásamt þeim kröfum sem gerðar eru til kerfisins.
Farið er yfir greiningu á öllum valkostum og þeir metnir út frá þeim markmiðum sem getið er um í raforkulögum og umhverfisáhrif þeirra metin. Gerð er grein fyrir tækifærum til jarðstrengslagna í meginflutningskerfinu en einnig farið yfir tæknilega annmarka.
Þá er farið vandlega yfir þau áhrif sem fyrirhugaðar framkvæmdir munu hafa á gjaldskrá fyrirtækisins og hvernig mögulegar gjaldskrársviðsmyndir gætu litið út.

Í framkvæmdahluta áætlunarinnar má finna umfjöllun um verkefni sem fyrirhugað er að byrja á næstu þrjú árin, ásamt þeim verkefnum sem eru í framkvæmd og hefjast á árinu.

Valkostagreiningar taka mið af markmiðum raforkulaga og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, auk þess sem gerð er grein fyrir umhverfisáhrifum allra valkosta.

Helstu niðurstöðum mats á þjóðhagslegum ávinningi þess að byggja upp öruggt flutningskerfi raforku eru gerð skil í langtímaáætlun.


Nákvæmari útlistarnir má finna í kerfisáætluninni sjálfri sem finna má hér.



Aftur í allar fréttir