Páll Harðarson hefur verið kjörinn stjórnarformaður Elmu orkuviðskipta ehf., dótturfélags Landsnets. Elma starfrækir skammtímamarkað með raforku, svokallaðan næsta-dags markað, í samstarfi við Nord Pool og rekur jafnframt rafrænan uppboðsmarkað fyrir langtímasamninga um raforku.
Páll býr yfir víðtækri reynslu af rekstri og þróun markaða. Hann var forstjóri Kauphallar Íslands á árunum 2011–2019 og starfaði þar áður sem aðstoðarforstjóri og forstöðumaður rekstrarsviðs frá 2002 til 2011. Á árunum 2023–2024 gegndi hann starfi fjármálastjóra markaðsviðskipta hjá Nasdaq Inc. en þar á undan var hann fjármálastjóri evrópskra markaða hjá Nasdaq.
Páll þekkir jafnframt vel til raforkukerfisins, en hann var fyrsti stjórnarformaður Landsnets við stofnun félagsins.
Hann hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og samtaka, þar á meðal norrænna kauphalla innan Nasdaq samstæðunnar, og situr nú í stjórn Kviku banka.
Páll er með doktorspróf í hagfræði frá Yale-háskóla og BA-próf í hagfræði frá Macalester College.