Bilun varð í spenni í tengivirkinu Rimakoti rétt upp úr kl. 16 í dag og við það var ekki hægt að flytja rafmagn til Vestmanneyja.
Í kjöfarið óskaði Landsnet eftir keyrslu varaafls á díselvélum HS Veitna í Vestmannaeyjum og hjá RARIK á Suðurlandi. Ásamt Vestmannaeyjum urðu íbúar undir Eyjafjöllum og í Mýrdal fyrir rafmagnsleysi vegna bilunarinnar.Strax var hafist handa við að greina bilunina til að koma rafmagni aftur á. Prófað var að setja spennu á spenninn um klukkan 19:30 eftir skoðun og greiningu. Á svipuðum tíma komu upp erfiðleikar við framleiðslu varafls og varð þá víðtækt rafmagnsleysi í Vestmannaeyjum. Prófað var að setja spennu á spenninn um klukkan hálf átta og leysti hann aftur út korter í átta. Vandamál voru með afhendingu rafmagns frá varaaflstöð til um það bil kl. 21.
Vinnuflokkar Landsnets eru á staðnum og nú rétt fyrir klukkan tíu var forgangsorka komin á í Vestmannaeyjum.