Rafmagnstruflanir á Vestfjörðum


13.02.2014

Framkvæmd

Nokkrar truflanir hafa verið síðustu daga í flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum vegna ísingar og bilana. Varaafl hefur verið keyrt til að brúa það bil sem upp á hefur vantað því Mjólkárstöð annar ekki öllu svæðinu.

Á sunnudag bárust upplýsingar um ísingu á Mjólkárlínu 1 í Reykhólasveit og var hún tekin úr rekstri síðdegis mánudaginn 10. febrúar. Ísing var hreinsuð af línunni í Reykhólasveit. Línan var komin aftur í rekstur um nóttina en á meðan var varafl frá díselstöðvum keyrt á Vestfjörðum. Aðfararnótt 12. febrúar urðu truflanir á rekstri Mjólkárlínu 1 og var línan tekin úr rekstri að nýju og notast við varafl.


Við skoðun á línunni í gærmorgun kom í ljós að truflanirnar stöfuðu af ísuðum jarðvír við Geiradal. Ísing var hreinsuð af leiðurum og jarðvírum og komu þá í ljós nokkrar skemmdir, bæði á jarðvír og leiðara. Var Mjólkárlína sett aftur í rekstur upp úr hádegi í gær en síðan tekin úr rekstri í gærkvöldi meðan skemmdir á leiðara voru lagfærðar og jarðvír tekinn niður.

Á meðan viðgerð á Mjólkárlínu stóð yfir í gærkvöld leysti svo Breiðadalslína 1 út. Búið er að finna bilun á Breiðadalslínu 1 á Flatsfjalli, milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Þar er ein burðarstæða brotin, tvær þverslár og skemmdir eru á leiðurum. Talið er fullvíst að bilunina megi rekja til áraunar af völdum ísingar og vinds. Vegna staðsetningar á bilun og erfiðrar aðstæðna má gera ráð fyrir að viðgerð taki einhverja daga.

Vegna þessa er nú varaaflskeyrsla víða á Vestfjörðum með vatnsaflsvélum á svæðinu.
Aftur í allar fréttir