Nú liggur fyrir meðalverð raforku vegna flutningstapa fyrir 2. ársfjórðung 2019 en samið hefur verið á grundvelli rafræns útboðs sem fram fór í janúar mánuði.
„Það eru ákveðin vonbrigði að verðið heldur áfram að hækka á þessum ársfjórðungi eins og verið hefur á undanförnum árum og við sjáum ekki hverjar skýringarnar eru. Hækkanir eru langt umfram vísitölu neysluverðs t.d.“ Segir Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs.
„Svo virðist sem árssveiflur sem hér áður voru mjög afgerandi, með lægri verðum á sumrin og hærri á veturna, séu að verða óverulegar. Núna horfum við á áframhaldandi hækkanir inn í sumarmánuðina á þessu ári og vetrarverðin hafa ekki lækkað á móti. Í þessu tilliti er því ekki hægt að tala um strúktúrbreytingu heldur hreina hækkun. Til lengri tíma litið veldur þetta hækkunum á heildarkostnaði okkar og þar með hærri kostnaði fyrir alla raforkunotendur.
Verðhækkun nemur 4,4% frá sama ársfjórðungi 2018
Þegar borin eru saman raforkuverð frá sama ársfjórðungi 2018 kemur í ljós að verðin hafa hækkað um 4,4%. Meðalverðið er 4,77 kr/kWh fyrir þetta tímabil. Boðin voru út grunntöp með fullum nýtingartíma og viðbótartöp með 57% nýtingartíma og sveigjanleika sem nemur magnaukningu eða magnminnkun um +/- 30%. Í útboði fyrir 2. ársfjórðung varð hækkun á meðalverði grunntapa samanborið við sama ársfjórðung síðasta ár sem nemur 7% en viðbótartöp lækka frá fyrra ári um 5%.
Samningar gerðir við 5 raforkusala
Að þessu sinni gerir Landsnet samninga við 5 raforkusala á grundvelli þeirra tilboða sem bárust. Það eru HS Orka, Íslensk Orkumiðlun, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og Orkusalan. Þetta eru allt raforkusalar sem gert hafa rammasamning við Landsnet til að geta tekið þátt í rafrænum útboðum á raforku vegna flutningstapa. „Við viljum gjarnan sjá fleiri raforkusala gera rammasamning við okkur, enda eykur það þátttöku og samkeppni á þessum markaði, til hagsbóta fyrir neytendur.“, segir Íris.
Öll tilboð birt á heimasíðu Landsnets
Öll tilboð sem bárust vegna útboðsins eru birt á https://www.landsnet.is og þar er hægt að skoða nánar dreifingu tilboða og bera saman við tilboð fyrri útboða.
Samanburður við Nordpool
Nordpool er stærsti raforkumarkaður í Evrópu og Landsnet ber saman meðal raforkuverð vegna flutningstapa við verð á Nordpool frá byrjun árs 2015.
Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Ríflega 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda. Sú raforka samsvarar um 400 GWh/ári.