Rafrænt innkaupaferli, aukið gagnsæi


18.04.2017

Framkvæmd

Landsnet er stærsti einstaki raforkukaupandinn á heildsölumarkaði á Íslandi en fyrirtækið kaupir á einu ári um 360 GWst af raforku vegna þeirrar orku sem tapast í flutningskerfinu.

Opinn samningur um innkaup á raforku vegna tapa í flutningi raforku var boðinn út fyrr á árinu. Raforka vegna flutningstapa  verður nú boðin út fjórum sinnum á ári í lokuðu útboði innan samningsins og er ástæðan m.a. betri endurgjöf á verði til markaðsaðila og gögn eru nær rauntíma við áætlunargerð enn áður. Með því verður hagkvæmni og skilvirkni innkaupanna aukin.

Opið innkaupakerfi

Við rekstur samningsins er  í fyrsta sinn notast við virkt innkaupakerfi vegna innkaupa á raforku á flutningstöpum. Kerfið er opið hverjum þeim rekstraraðila sem uppfyllir hæfiskröfur samningsins allan samningstímann. Hægt er að sækja um að aðild að samningnum hvenær sem er á samningstíma. Landsnet mun samþykkja umsóknina innan 10 virkra daga frá móttöku hennar. Samningurinn gildir í 4 ár og er heimild til 2x1 árs framlengingu.

Einstök innkaup á samningstíma fara fram með lokuðu útboði þar sem aðilum samningsins á hverjum tíma er boðið að gera tilboð en minnsta  tilboðseining er 1 MWst.

Útboð í gangi

Nú þegar hafa fimm raforkusalar gert rammasamning við Landsnet og er fyrsta lokaða útboðið innan samningsins  í loftinu núna og er skilafrestur 27. apríl 2017. Samningurinn, öll samskipti og lokuðu útboðin eru að fullu rafræn í gegnum útboðskerfi Landsnets, delta-esourcing.com.

Allar upplýsingar um samninginn birtist  hér á heimsíðu Landsnets á næstu dögum.

Þeir orkusalar sem eru hluti af virka innkaupaferlinu eru:

HS Orka
Íslensk Orkumiðlun
L
andsvirkjun
Orka Náttúrunnar
Orkusalan

Aftur í allar fréttir