Rannsóknir á slydduísingu á loftlínum kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu í Bandaríkjunum


19.04.2016

Framkvæmd

Rannsóknir sem Landsnet og íslensk orkufyrirtæki hafa staðið að um langt skeið um áhrif alvarlegra ísingartilvika voru til umfjöllunar á alþjóðlegri ráðstefnu í Charlotte í Bandaríkjunum fyrir helgi um hönnun og úrbætur á háspennuloftlínum.

Ráðstefnan var á vegum hóps sem kallast Transmission Overhead Design & Extreme Event Mitigation Interest Group og er hluti af alþjóðlegum samtökum sem kallast CEATI International (Centre for Energy Advancement through Technological Innovation) og standa að rannsóknum og framförum í orkugeiranum.

Að þessu sinni var m.a. fjallað um greiningu og áhrif alvarlegra ísingartilvika, og athyglinni einkum beint að slydduísingu, og að beiðni CEATI mætti Árni Jón Elíasson, sérfræðingur Landsnets, á ráðstefnuna og kynnti rannsóknir sem orkufyrirtækin á Íslandi hafa staðið að um langt skeið á þessu sviði. Hann greindi m.a. frá því hvernig niðurstöðurnar hafa nýst við ákvörðun álagsforsendna vegna uppbyggingar nýrra háspennulína í flutningskerfinu og til að bæta rekstraröryggi eldri lína, einkum í dreifikerfinu. Árni Jón kynnti einnig þá þróunarvinnu sem fram hefur farið á Íslandi og víðar við að endurbæta spálíkön fyrir ísingarhættu og ísingaráhleðslu og grundavallast að verulegu leyti á samanburði á niðurstöðum hermilíkana við raunmælingar vítt og breitt um Ísland.


Aftur í allar fréttir