Reynt að koma rafmagni til Akureyrar – rafmagn að komast á á norðanverðum Vestfjörðum og á Suðausturlandi


08.12.2015

Bilanir eru á Rangárvallalínu 1 milli Varmahlíðar og Rangárvalla, Kröflulínu 1 milli Rangárvalla og Kröflu en unnið er að því að koma rafmagni til Akureyrar frá Laxárstöð og verður rafmagn skammtað á Akureyri ef það tekst.

Ekki er vitað hvort um alvarlega bilun er á ræða á Rangárvallalínu 1 og Kröflulínu 1. Viðgerðarflokkur sem fór að kanna ástand Rangárvallalínu varð frá að hverfa vegna veðurs og því ljóst að ekki verður hægt að kanna ástand hennar fyrr en veðrinu slotar á þessum slóðum. Svipaða sögu er að segja um Kröflulínu 1, reynt er að kanna ástand hennar en ólíklegt að það takist fyrr en veður gengur niður. 

Varastöðin í Bolungarvík er nú komin í rekstur og uppbygging flutningskerfis á norðanverðum Vestfjörðum hafin. Þá er komið í ljós að bilun er í tengivirkinu í Breiðadal við Önundarfjörð en vegna veðurs er ekki hægt að senda þangað menn. Því verður áfram rafmagnslaust í Önundarfirði.

Þá hefur tekist að koma Prestbakkalínu 1, milli Prestbakka og Hóla í rekstur. Rafmagn er því væntanlegt til notenda út frá Hólum í Hornafirði og Teigarhorni við Djúpavog. Teigarhornslína 1, milli Teigarhorns og Hryggstekks er hins vegar enn úti og er ekki vitað hvað veldur. Viðgerðarflokkur er á leið að bilanastaðnum, sem er stutt frá Hryggsekk, með snjóbíl.

Aftur í allar fréttir