Landsnet hefur samið um kaup á raforku vegna flutningstapa fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2017 á grundvelli tveggja útboða frá því í nóvember.
Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í flutningslínum og spennum í flutningskerfinu. Um 2,2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda.
Orka vegna tapa í flutningi raforku hefur verið boðin út til eins árs í senn frá stofnun Landsnets. Á árunum 2015 og 2016 fengust ekki tilboð í alla útboðna orku og í kjölfarið var skoðað með hvaða hætti Landsnet gæti brugðist við því til að tryggja öryggi raforku. Ákveðið var að bjóða út oftar og stytta útboðstímabilið og fá þannig þéttari endurgjöf á verð til markaðsaðila og gera þeim kleift að notast við gögn nær rauntíma.
Í undirbúningi er jafnframt rafrænt innkaupaferli sem tekið verður í notkun næsta vor, þannig verður hagkvæmni og skilvirkni innkaupanna aukin.
Boðið var út í tvígang - í fyrra útboði bárust tilboð í um 95% orkunnar og í því seinna komu tilboð í þá orku sem vantaði upp á. Þrír aðilar tóku þátt í útboðinu; HS orka, Landsvirkjun og Orka náttúrunnar.
Boðin voru út grunntöp, afl með fullan nýtingartíma og viðbótartöp með breytilegan nýtingartíma.
Mánuður |
Afl (MW) |
Janúar |
38 |
Febrúar |
38 |
Mars |
35 |
Apríl |
34 |
Maí |
34 |
Júní |
32 |
Fjórðungur |
Afl (MW) |
Orka (MWh) |
Nýtingartími (klst.) |
Q1 |
15 |
16.200 |
1.080 |
Q2 |
17 |
17.700 |
1.041 |
Heildarkostnaður kaupanna var rúmar 926 milljónir króna, þar af grunntöp 698 milljónir króna og viðbótartöp 228 milljónir króna. Meðalverð orku vegna flutningstapa hækkaði um 9% miðað við fyrstu sex mánuði ársins 2016. Meðalverð á grunntöpum stendur nokkurn veginn í stað en meðalverð vegna viðbótatapa hækkar um 19%.
Áætlun hefur verið gerð fyrir árið 2017 sem gefur að hækka þurfi gjald vegna flutningstapa. Landsnet hefur því ákveðið að hækka skuli gjaldskrá vegna flutningstapa um 10,5% þann 1. janúar 2017 með fyrirvara um athugasemdir frá Orkustofnun.