Samtal við leyfisveitendur framundan


24.04.2020

Framkvæmd

Skipulagsstofnun birti í dag álit sitt á umhverfismati vegna Suðurnesjalínu 2, framkvæmd sem m.a. er ætlað að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum. Um er að ræða eina af mikilvægustu framkvæmdum flutningskerfisins og er hún meðal annars í aðgerðalista stjórnvalda til að styrkja innviði landsins í kjölfar óveðranna sem gengu yfir landið í vetur.

„Við fögnum því að matið sé komið fram og að í flestum atriðum sé Skipulagsstofnun sammála umhverfismatinu en telur að jarðstrengskostur hafi nokkur minni umhverfisáhrif en kemur fram í matsskýrslunni. Í verkefni eins og þessu þarf alltaf að taka tillit til margra ólíkra þátta, svo sem kostnaðar og öryggis, til viðbótar við umhverfisþáttinn. Það hafa líka komið upp ný sjónarmið í kjölfarið á nýlegum jarðhræringum á svæðinu sem þarf að skoða sérstaklega. Framundan er samtal við leyfisveitendur um næstu skref og höfum við væntingar til þess að það samtal leiði til góðrar niðurstöðu“ segir Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs hjá Landsneti.

Fyrir liggur leyfi Orkustofnunar fyrir framkvæmdinni með samþykkt Kerfisáætlunar Landsnets, byggt á ákvæðum raforkulaga. Það leyfi tekur til valkosts sem er sambærilegur við þann sem lagður er fram í matsskýrslu og er sá kostur í samræmi við stefnu stjórnvalda um að notast skuli við loftlínur í meginflutningskerfinu.

Hér er hægt að nálgast álit Skipulagsstofnunar.

Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um framkvæmdina.
Aftur í allar fréttir