Seinkun á Hólasandslínu


03.11.2021

Framkvæmd

Framkvæmdir við Hólasandslínu 3, tenginguna á milli Hólasands og Akureyrar, hófust í ágúst 2020 og var áætlað að taka línuna í rekstur í lok árs 2021. Nú er ljóst að seinkun verður á því að línan verði tekin í rekstur. Helstu ástæður eru að við höfum verið óheppin með veður á framkvæmdasvæðinu, síðasti vetur var snjóþungur, tafir urðu á ákveðnum verkþáttum og heimsfaraldurinn gerði ekki auðvelt fyrir, bæði þegar kom að mannskap og aðföngum.

Veturinn mætti svo óvenju snemma þetta haustið og nú er svo komið að vinna við reisingu mastra og strengingu leiðara er ekki lengur örugg.

Verktakarnir okkar, Elnos frá Bosníu, eru á leið heim en þeir hafa verið að vinna bæði við Hólasandslínu 3 og Kröflulínu 3 sem tekin var í rekstur fyrir skömmu. Reiknum við með að byrja aftur vinnu við möstur og reisingu í mars/apríl, eða um leið og aðstæður leyfa.

Spennusetning á Hólasandslínu er svo áætluð í ágúst 2022.

Ný kynslóð byggðalínu

Línan er rúmlega 70 km löng og liggur um fjögur sveitarfélög, Skútustaðahrepp, Þingeyjarsveit, Eyjafjarðarsveit og Akureyri. 10 km af línunni, í Eyjafjarðarsveit og Akureyri, er jarðstrengur.

Markmiðið með byggingu Hólasandslínu 3 er að koma á nýrri öflugri tengingu milli Hólasands og Rangárvalla á Akureyri og auka þannig stöðugleika, öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku á Norður- og Austurlandi.

Línan er hluti af nýrri kynslóð byggðlínu. Kröflulína 3 er þegar komin í rekstur og undirbúningur er hafinn að lagningu þriðju línunnar, Blöndulínu 3. Þessar línur eru allar mikilvægar fyrir flutningskerfi landsins í heild og eru mikilvægur hlekkur í því að styrkja tengsl við sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorni landsins.
Aftur í allar fréttir