Skiptu út skyrtum fyrir bol #landsnetslífiðátímumCovid


12.10.2020

Framkvæmd

Í síðustu viku skiluðum við kerfisáætlun inn til Orkustofnunar, dagur sem alltaf markar smá tímamót hjá þeim Gný, Arnari Má, Ragnari Erni og Árna Baldri en þeir skipa kerfisáætlunarteymið okkar.

Þeir eru ekki bara eldklárir verkfræðingar sem allir eru menntaðir í Danmörku heldur eru þeir líka smekkmenn þegar kemur að klæðnaði og eiga  þeir allir nokkur pör af sér saumuðum skyrtum sem þeir mæta í  í vinnuna á Gylfaflötunni.

Fyrsta spurninginn til þeirra þennan morguninn var auðvitað að spyrja út í skyrtudagana, hvernig þeim málum sé háttað í heimavinnunni já og svo auðvitað að fá að heyra hvernig gengur með næstu áætlun, hvort sú vinna sé komin af stað.

Gnýr verður fyrstur fyrir svörum um skyrturnar. „Sko málið er það að  í heimavinnunni verður skyrtan að bol og á hverjum föstudegi er valinn bolur vikunnar, ég er til dæmis alltaf í Lewi‘s.“  Ragnar grípur boltann og segir „ég er í Bertoni bol í dag“. Arnar er í aðeins annarri stemningu. „Ég var í Wayne‘s world bol í gær“ segir Arnar og Árni Baldur gaf ekkert upp um bol dagsins.

Teymið er allt að vinna heiman frá sér og þeir halda vel þræði fyrir daginn, taka stutta fundi þrisvar á dag til að taka púlsinn á kerfisáætlunarvinnunni – morgunbollann, hádegisslúðrið og „fyraften“.

„Fyraften er danska og notað yfir það þegar maður er að hætta á daginn“ segir Gnýr. Ekki eru þeir á allt sáttir um hvaðan orðið er komið og tókum við nokkra hringi með það en að lokum komumst við að niðurstöðu, að þetta væri að halda upp á eitthvað og það er það sem þeir eru að gera í lok hvers  dags.

Allir hafa þeir komið sér upp rútínu í heimavinnunni og reyna að halda skýrum skilum milli vinnu og einkalífs.

Árni Baldur fer í skúrinn þar sem hann hefur komið sér upp vinnuaðstöðu þannig að hann fer í vinnuna og nær að halda góðum þræði í deginum þegar hann hefur farið með barn á leikskóla.

Ragnar byrjar daginn korter í átta og var þegar við tókum spjallið að vígja nýja vinnuaðstöðu og nýtt skrifborð í aukaherberginu. 

Arnar elskar heimavinnuna og hann og unglingurinn hans eru ótrúlegar lukkulegir að geta verið heima alla vikuna í sömu fötunum.

Gnýr passar alltaf upp á hádegið og tekur alltaf pásu í hádeginu og eldar og hlustar á útvarpið, hádegisfréttir á Rás 1 í sófanum alveg eins og hann gerði þegar hann vann á vélaverkstæði í Neskaupstað 1997.

Teymið er þegar byrjað á næstu kerfisáætlun og það er klárlega spennandi framtíð fram undan þegar kemur að uppbyggingu flutningskerfisins sem nú er unnin í bolum en ekki skyrtum, í bílskúr í Mosfellsbænum, í sófa í Garðabænum, við borðstofuborðið í Vesturbænum og við nýtt skrifborð í Kópavogi. 

Aftur í allar fréttir