Sjálfvirkar stýringar í flutningskerfi Landsnets, svokallaðar snjallnetslausnir, gerðu fyrirtækinu kleift að flytja orku umfram skilgreind stöðugleikamörk á liðnu ári sem samsvarar raforkunotkun um 50 þúsund rafbíla. Ella hefði þurft að skerða raforku til notenda sem þessu nemur til að tryggja öruggan kerfisrekstur.
Þetta kom fram í erindi Írisar Baldursdóttur, framkvæmdastjóra kerfisstjórnunarsviðs Landsnets, á morgunverðarfundi um orkumál og tækniþróun sem fyrirtækið Johan Rönning stóð fyrir í Hörpu fyrir helgi.Á fundinum kynnti Íris m.a. þær framfarir sem hafa orðið í stjórnun raforkukerfisins í kjölfar þróunar svokallaðra snjallnetslausna í flutningskerfinu og hafa aukið áreiðanleika orkuafhendingar og nýtingu flutningskerfisins víða en nýting flutningsgetu eftir byggðalínu er að mörkum komin.
Þannig dró snjallnet Landsnets á Vestfjörðum úr straumleysi til forgangsnotenda á því svæði um helming á síðasta ári og sjálfvirkar stýringar gerðu Landsneti einnig kleift að hækka flutningsmörk í kerfinu, einkum milli Norðaustur- og Suðvesturlands.
Sú orka sem flutt var umfram skilgreind stöðugleikamörk byggðalínunnar í fyrra samsvaraði um 120 gígavattstundum (GWst) en það samsvarar raforkunotkun um 50 þús. rafbíla (miðað við meðalkeyrslu 11.000 km á ári og notkunin 22 kWst á 100 km) eða raforkunotkun um 27 þúsund heimila, miðað við að meðalraforkunotkun heimilis sé 4.500 kWst á ári.
Fundurinn í Kaldalóni Hörpu var vel sóttur en auk Írisar höfðu framsögu þeir Troels Ranis, varaforseti Samtaka iðnaðarins í Danmörku og Claus Madsen, forstjóri ABB í Danmörku. Haraldur Líndal Pétursson, forstjóri Johan Rönning, var fundarstjóri.