Spálíkön um ísingu á raflínum að líta dagsins ljós


16.09.2013

Framkvæmd

Landsnet hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir og unnið að þróun aðferða til að herma áhleðslu ísingar á raflínur. Vonir standa til að innan tíðar verði hægt að beita veðurfarslíkönum og sérstökum ísingarlíkönum til að kortleggja og herma þessa þætti og spá í framhaldinu nokkra daga fram í tímann fyrir um ísingu á loftlínum. Í tengslum við verkefnið hafa íslenskir sérfræðingar aðstoðað við mat á ísingarhættu vegna línulagna í Kanada.

Staða ísingarrannsókna Landsnets og íslenskra sérfræðinga voru kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu (IWAIS) í St. John´s á Nýfundalandi á dögunum þar sem komnir voru saman fulltrúar þeirra þjóða sem eiga við hvað mest vandamál að stríða vegna áhleðslu ísingar á raflínur. Árni Jón Elíasson frá Landsneti og Hálfdán Ágústsson frá Reiknistofu í veðurfræði og Veðurstofu Íslands voru fulltrúar Íslands á ráðstefnunni og vöktu erindi þeirra mikla athygli ráðstefnugesta, en þau voru unnin að frumkvæði Landsnets með aðstoð frá Verfræðistofunni Eflu, Reiknistofu í veðurfræði og Veðurstofu Íslands.

Einstakur gagnagrunnur um ísingu til á Íslandi
Annað erindið greindi og lýsti ísingarveðrunum sem orsökuðu bilanir á flutnings- og dreifikerfinu á Norðurlandi í september og desember í fyrra en hitt erindið fjallaði um áfanganiðurstöðu í vinnu við að beita veðurfarslíkönum og sérstökum ísingarlíkönum til að kortleggja og herma ísingarhleðslu á raflínur. Þær niðurstöður eru bornar saman við raunmælingar á ísingu en Landsnet hefur yfir að ráða einstökum gagnagrunni á alþjóðavísu um ísingu. Upplýsingarnar í honum byggja m.a. á skipulagðri skráningu ísingartilvika á loftlínum í rekstri til margra áratuga og sérstöku mælikerfi tilraunalína sem reistar hafa verið víða um land allt frá árinu 1973. 

Kom fram hjá þeim Árna Jóni og Hálfdáni að óðum styttist í að reiknilíkön sem unnið hefur verið að, m.a. af íslenskum sérfræðingum, verði nothæf sem raunhæf verkfæri til að styðja við gerð veðurfarslegra álagsforsendna, m.a. fyrir háspennulínur. Auk þess munu líkönin nýtast við val á línuleiðum, en ísingarhætta getur ráðið miklu í þeim efnum. Jafnframt væru bundnar vonir við að reiknilíkönin nýttust innan tíðar við spár um ísingu á loftlínum nokkra daga fram í tímann og stuðluðu þannig að auknu rekstraröryggi raforkukerfa.

 
Íslenskir sérfræðingar aðstoða Kanadamenn við mat á ísingarhættu
Ráðstefna IWAIS var í ár haldin í fimmtánda sinn. Að þessu sinni varð borgin St. John´s á Nýfundalandi fyrir valinu en Kanadamenn haf verið mjög virkir á þessum vettvangi síðan mikil áföll dundu yfir raflínukerfið í austanverðu Kanada árið 1998. Nú eru uppi áform um miklar línulagnir frá Labrador til Nýfundnalands þar sem m.a. þarf að fara yfir háa fjallgarða. Gert er ráð fyrir ísingarhættu á línuleiðinni og hafa sérfræðingar tengdir raforkugeiranum á Íslandi, m.a. frá LV-Power, verkfræðistofunni Eflu og Landsneti, aðstoðað heimamenn undanfarin ár við að meta þessa hættu, ásamt norskum aðilum.

Íslenskar ísingarrannsóknir hafa gegnt mikilvægu hlutverki við gerð alþjóðlegra leiðbeininga og staðla um ísingu, ekki síst í tilviki slydduísingar enda hefur Ísland um langt skeið átt fulltrúa á IWAIS ráðstefnunum. Hún var haldin í Reykjavík árið 1998, við höfum átt fulltrúa í alþjóðlegri ráðgjafanefnd IWAIS frá 1993 og Ísland gegndi formennsku í stjórn á árunum 1998-2000.

Íslensku erindin á IWAIS-ráðstefnunni í St. Johns: 

 


Aljóðleg ráðgjafanefnd IWAIS, Árni Jón Elíasson frá Landsneti er þriðji frá hægri

Ísing á raflínum í septemberáhlaupinu 2013.

Aftur í allar fréttir