Í mati á umhverfisáhrifum er unnið að því að spá fyrir um hvernig framkvæmdir geta breytt núverandi ástandi. Mikilvægt er að byggja matið á góðum upplýsingum um grunnástand og hvað helst muni einkenna áhrif framkvæmdarinnar, t.d. umfang rasks og ásýnd.
Við hjá Landsneti höfum undanfarið unnið að því að bæta aðferðir við að spá fyrir um hve mikil áhrif framkvæmdir fyrirtækisins geta haft á einstaka umhverfisþætti. Til að bæta þær aðferðir enn frekar réðist Landsnet í gerð rannsóknaverkefnis, þar sem gerð var tilraun til að bera saman nokkrar spár úr umhverfismati við raunveruleg áhrif. Unnið var með umhverfismat Bakkalína og spár um umfang nokkurra verkþátta. þar sem spám um umhverfismat var fylgt eftir. Afrakstur þeirrar vinnu má nú sjá í skýrslu sem finna má hér á vefnum.
Vinna þessa verkefnis hefur leitt í ljós ýmsan ávinning. Mikilvægast er að upplýsingar úr slíkri eftirfylgni nýtast til að bæta næstu matsverkefni og aðferðir til að spá fyrir um áhrif. Þá ýtir aukin kortlagning og þekking á raunverulegum áhrifum undir að frekari leitað er frekari lausna til að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmda.
Rut Kristinsdóttir sérfræðingur Landsnets í umhverfismati segir að framundan sé að bæta verkferla.
„ Framundan er að bæta verkferla , þannig að hverju umhverfismati fylgi greining á raunverulegum áhrifum framkvæmda. Sú greining á svo að skila sér inn í umhverfismat annarra framkvæmda og bæta forspárgildi þeirra. Augljóslega er auðveldara að sannprófa breytur með auðmælanleg gildi, heldur en huglægari og fyrirséð að áhersla eftirfylgninnar liggi þar til að byrja með. Hins vegar felst áskorun í að reyna að takast á við huglægari matsþætti og getur eftirfylgni á fleiri breytum vonandi skilað sér smám saman inn í verkferla.“