Sagði Anna Sigga Lúðvíksdóttir sérfræðingur í innkaupum á fjármálasviðinu okkar þegar við heyrðum í henni í morgun og tókum morgunbollafjarfund um lífið í vinnunni þessa dagana sem er samofið lífinu heima.
Þennan morgun var foreldraviðtalsdagur í skólanum hjá Ara syni hennar sem var að byrja í sjö ára bekk í haust og er ótrúlega glaður að hafa mömmu sína heima á daginn, tala nú ekki um þegar hún bakar pönnukökur handa honum og félögunum eða smellir sér í fótbolta, hjólatúr eða fjallgöngu með honum.
Framkvæmdir hjá Landsneti eru á fullu þessa dagana og er nóg að gera hjá innkaupa- og birgðateyminu sem hittist á hverjum morgni á rafrænum fundi, bara eins og við kaffivélina þegar við vorum á Gylfaflötinni og taka spjallið áður en haldið er inn í daginn.
„Ég er búin að vera að vinna í verkefni tengdu Lækjartúni, áhugavert verkefni sem er að fara af stað hjá okkur núna, og þá tekur við hjá mér innkaup vegna tengivirkisins í Hrútatungu sem er orðið landsþekkt eftir óveðrið og ísingarvandamálin í desember í fyrra en nú stendur til að byggja yfir það. Þá má segja að verkefnin mín hafi gengið vel en verkefni sem krefjast mikillar stefnumótunar og samtals taka lengri tíma en áður, þau eru tímafrekari og verða þannig þyngri.“
Anna segir heimavinnuna genga betur núna en í fyrstu bylgjunni þegar skólar voru takmarkað opnir. „Það fylgja þessu kostir og gallar, í vetur þegar skólarnir voru líka lokaðir þá runnu dagarnir saman í eitt, vinna, heimanám, æfingar og allt það. Maður vaknaði á mánudegi og sofnaði á föstudegi. Núna gengur þetta betur, álagið minna þegar kemur að umhverfinu fyrir utan. Dagurinn er oftast eins vinnulega hjá mér en þar fyrir utan er ég eins og leigubílstjóri í aukavinnu við að skutla stráknum“ segir hún hlægjandi.
Anna segir mikilvægt að ná að hreyfa sig reglulega í þessu ástandi og að það haldi manni gangandi þegar vantar orku. Hún nýtir hádegið eins oft og hún getur til að hreyfa sig, fer út að skokka, hjóla, ganga eða tekur styrktaræfingar ef veðrið er leiðinlegt.
Anna Sigga horfir bjartsýn fram á veginn og segir að öllum líkindum verði ekkert eins í vinnunni eftir þennan tíma.
„Ég held að það eigi margt eftir að breytast. Grunnurinn verður auðvitað alltaf að við vinnum flest okkar verkefni í vinnunni en við þurfum alltaf að eiga í samskiptum við fólk. En við sjáum líka að við getum vel unnið sum verkefni heima, það á örugglega eftir að þróast áfram og að valkostirnir verði fleiri en áður."
Spurð hvort hún hafi ekki dottið í súrdeigið eins og „allir“ hinir hjá Landsneti svarar hún: „Ég hef prófað það, en það gekk ekki eins vel og vonast var eftir, en verður klárlega reynt aftur. Ég er meira að vinna með pönnukökur um helgar“ segir Anna Sigga áður en hún kveður og smellir sér á næsta fund í rafheimum.