Rétt upp úr átta í kvöld leysti Sigöldulína 4 og Prestbakkalína 1 út en eftir að Prestbakkalína var rofin frá Sigöldulínu 4 á Prestbakka, var hægt að spennusetja Sigöldulínu 4 frá Sigöldu afhenda rafmagn á ný í Vestur Skaftafellssýslu út frá Prestbakka.
Skömmu áður en Sigöldulína 4/Prestbakkalína 1 leystu út, var kerskáli álvers Alcoa frátengdur byggðalínunni til að minnka áhættu vegna hugsanlegra truflana í flutningskerfinu, og kom það sér vel þegar fyrrnefndar línur leystu út.Nokkur síðar var svo Breiðadalslína 1, milli Mjólkárvirkjunar og Breiðadals við Önundarfjörð, tekin út til að auka afhendingaröryggi á norðanverðum Vestfjörðum. Fá norðanverðir Vestfirðir nú rafmagn frá varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík. Stuttu síðar var svo Mjólkárlína 1, milli Geiradals og Mjólkárvirkjunar, tekin úr rekstri til að auka afhendingaröryggi rafmagns á sunnanverðum Vestfjörðum. Fá sunnaverðir Vestfirðir rafmagn frá Mjólkárvirkjun.
Þá leysti Bolungarvíkurlína 1 á milli Bolungarvíkur og Breiðadals út á tíunda tímanum í kvöld en það hafði ekki áhrif á afhendingu raforku til notenda vestra.
Stuttu síðar leysti Hafnarlína 1, milli aðveitustöðvarinnar í Hólum og Hafnar í Hornafirði, út og olli hún rafmagnsleysi á Höfn og í nærsveitum í stutta stund áður en tókst að spennusetja hana á ný.
Rétt fyrir hálf tíu leysti svo Vatnshamralína 1, milli Brennimels og Vatnshamra, út og fóru þá Norður- og Austurland í eyjarekstur en ekki varð rafmangsleysi hjá notendum. Tvær mínútur yfir klukkan tíu í kvöld komst Vatnshamralína 1 aftur í rekstur og er flutningskerfið á Norður- og Austurlandi þar með tengt meginflutningskerfinu á ný.