Tæknileg vandamál í stýribúnaði eru ástæða þess að varaaflsstöðin í Bolungarvík komst ekki strax í gagnið í fárviðrinu í byrjun síðasta mánaðar sem olli verulegu tjóni á flutningskerfi Landsnets, ekki síst á Vestfjörðum.
Frá því að nýja varaaflsstöðin í Bolungarvík komst í rekstur í lok desember 2014 hefur hún gjörbreytt orkuöryggi íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Alla jafnan hefur tekið innan við tvær mínútur að virkja stöðina í kjölfar straumleysis en í óveðrinu sem gekk yfir landið að kvöldi 7. desember sl. var hins vegar straumlaust í um eina og hálfa klukkustund, áður en varaaflsstöðin gat farið að sjá íbúum á Ísafirði og Bolungarvík og þar í kring fyrir rafmagni. Varaaflsstöðin gekk síðan snurðulaust í tæpa viku, eða allt þar til viðgerð var lokið á flutningskerfinu vestra.Bilanagreining hefur leitt í ljós að töf á innsetningu varaaflstöðvarinnar umrætt kvöld má rekja til stillingar í varnarbúnaði. Þar sem stýribúnaður stöðvarinnar er bæði nýr og tæknilega mjög flókinn tók það sérfræðinga Landsnets nokkurn tíma umrætt kvöld að átta sig á vandamálinu og ráða fram úr því.