Stjórn Landsnets var endurkjörin á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn var fimmtudaginn 20. mars sl., í framhaldi af fjölsóttum kynningarfundi félagsins. Jafnframt var ársreikningur félagsins 2013 staðfestur en rekstrarniðurstaða ársins var nokkuð betri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir.
Heildartekjur Landsnets árið 2013 námu 13,9 milljörðum króna, rekstrarhagnaður (EBIT) nam tæplega 6,6 milljörðum og hagnaður ársins var tæplega 2,2 milljarðar króna. Langtímaskuldir fyrirtækisins voru 58,6 milljarðar króna, eigið fé nam tæplega 15,5 milljörðum króna og var 19,9% af heildareignum í árslok 2013. Fjárfest var fyrir tæplega 6,5 milljarða á liðnu ári, mest til að styrkja núverandi flutningskerfi raforku. Stærstu verkþættirnir voru launaflsvirki á Klafastöðum, sæstrengur til Vestmanneyja og háspennumannvirki við Búðarháls.Í stjórn Landsnes 2013-2014 sátu Geir A. Gunnlaugsson, fyrrverandi forstjóri Marels og Sæplasts/Promens, Svana Helen Björnsdóttir, starfandi stjórnarformaður Stika, Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Farice, og varmaður í stjórn var Svava Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Strategíu. Þau voru öll endurkjörin til eins árs.
Geir hefur setið í stjórn Landsnets frá 2011 og er formaður stjórnar, Svana Helen var kjörin í stjórn 2009 og Ómar árið 2012. Til að fullnægja lögbundnum kröfum um hlutleysi og jafnræði ber stjórnarmönnum að vera sjálfstæðir og óháðir eigendum Landsnets (Landsvirkjun, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubúi Vestfjarðar) sem og öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu og sölu raforku.