„Undanfarna daga hefur mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Landsnets vegna Þeistareykjavirkjunar og uppbyggingu iðnaðar á Bakka. Framkvæmdirnar eru áfangi í því að tengja iðnaðarsvæðið á Bakka við flutningskerfi raforku. Þær hafa farið í gegnum alla lögbundna ferla er snúa að umhverfismati og skipulagi og eru í takt við stefnu stjórnvalda í raforku- og byggðamálum. Svæðið sem stöðvunarkrafan nær yfir er að stórum hluta skilgreint iðnaðarsvæði í skipulagi og er því gert ráð fyrir athafna- og iðnaðarstarfsemi á umræddum svæðum.“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets.
Frá því í október 2011, er ljóst varð að ekki yrði af áformum um álver á Bakka, hefur staðið yfir leit að öðrum heppilegum iðnaðarkostum og á árunum 2012 til 2013 fór fram mat á umhverfisáhrifum kísilmálmverksmiðju á Bakka. Í matsáætlun, matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar þeirrar framkvæmdar kemur m.a. fram að framkvæmdin sé háð raforku og flutningi raforku til verksmiðjunnar og að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum vegna háspennulína (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykum að Bakka við Húsavík. Framkvæmdin var auglýst í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum en engar athugasemdir bárust varðandi framkvæmdir Landsnets eða gildi mats á umhverfisáhrifum þeirra.
Raforkuflutningar í anda stefnu stjórnvalda
Frá árinu 2006 hefur legið fyrir stefna sveitarfélaganna um landnýtingar- og verndaráætlun háhitasvæða á Norðausturlandi. Sú stefna endurspeglast í svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 sem og aðalskipulagi hvers sveitarfélags. Í september árið 2013 undirrituðu iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fjárfestingarsamning við PCC og PCC BakkiSilicon hf., en áður hafði Alþingi samþykkt lög um heimild til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi. Þá undirrituðu Landsnet og PCC BakkiSilicon hf. samning um orkuflutning fyrir kísilver á Bakka í febrúar 2014. Sveitarfélögin á svæðinu gáfu út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 í maí og júní 2016 en nú er staðan sú að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindanefndar hefur fallist að hluta til á stöðvunarkröfur Landverndar í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi.
„ Um margra ára skeið hefur það verið stefna stjórnavalda að nýta eigi svæðin til raforkuframleiðslu og höfum við hjá Landsneti hagað okkar uppbyggingaráformum í samræmi við þá stefnu. Í því felst að tengja virkjunina við raforkuflutningskerfi landsins og koma rafmagni til þess iðnaðar sem fyrirhugað er að byggja upp" segir Guðmundur Ingi.
Bráðabirgðaúrskurðirnir sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi 19. ágúst sl. um stöðvun framkvæmda vegna ákvarðana sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 hefur eins og fram hefur komið haft mikil áhrif og er ekki séð fyrir endann á þeim.