Styttist í að fyrstu nýsköpunarmöstur Landsnets rísi eftir margra ára þróunarvinnu


15.02.2016

Framkvæmd

Prufuútgáfa af fyrsta háspennumastrinu sem Landsnet hefur látið hanna sérstaklega með tilliti til íslenskar aðstæðna verður reist í Hafnarfirði á næstu vikum og innan tíðar verður einnig reist prufuútgáfa af örðu mastri sem verið hefur í hönnun á vegum fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í grein eftir Nils Gústavsson, framkvæmdastjóra framkvæmda- og rekstrarsviðs Landsnets og Sverri Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóra þróunar- og tæknisviðs Landsnets í Morgunblaðinu í dag þar sem stiklað er á stóru í nýsköpunar- og þróunarstarfi Landsnets vegna háspennumastra. Hér fyrir neðan má lesa greininga í heild:

Ásýnd í forgrunni við hönnun á nýjum möstrum

Merkur áfangi í nýsköpunar- og þróunarstafi Landsnets lítur dagsins ljós á næstu vikum þegar fyrsta háspennumastrið sem fyrirtækið hefur látið hanna sérstaklega með tilliti til íslenskra aðstæðna verður reist í Hafnarfirði. Það verður í framtíðinni hluti af nýjum flutningslínum Landsnets sem leysa af hólmi Hamraneslínurnar sem reistar voru árið 1969 og liggja frá Geithálsi til Hafnarfjarðar um Heiðmörk.

Nýja mastrið hefur fengið vinnuheitið „Ballerína“, enda yfirbragð þess umtalsvert léttara en gömlu stálgrindarmastranna, en það er keilulaga, frístandandi röramastur sem þykir henta vel þar sem pláss er lítið og línugata þröng. Mikið var lagt í nýstárlega hönnun nýja mastursins og minnir yfirbragð þess um margt frekar á trjástofn en hefðbundið háspennumastur. Það mjókkar eftir því sem ofar dregur, til að minnka sýnileika, auk þess sem engar tengingar eða samskeyti eru sjáanleg. Þá lætur litur mastursins það líka falla betur að umhverfinu. Neðsti hlutinn er mosagrænn en eftir því sem ofar dregur breytist liturinn og er efsti hlutinn himinblár.

Alþjóðleg samvinna í nýsköpun
Landsnet tók til starfa árið 2005 og hefur frá upphafi haft nýsköpun og þróun að leiðarljósi við uppbyggingu og stýringu flutningskerfis raforku, með það að meginmarkmiði að tryggja örugga afhendingu rafmagns til almennings og fyrirtækja á Íslandi og draga úr sjónrænum áhrifum mannvirkja eins og kostur er. Hefur Landsnet m.a. tekið virkan þátt í rannsóknar- og nýsköpunarhópi Evrópusamtaka flutningsfyrirtækja (ENTSO-E) og innan CIGRÉ (International council on large electric systems), um hönnun háspennulína og tengivirkja, jafnframt því sem norrænu flutningsfyrirtækin hafa starfað saman að þessum málum.

Landsnet efndi til alþjóðlegrar samkeppni um háspennumöstur framtíðarinnar árið 2008. Statnett í Noregi og National Grid á Bretlandi fylgdu í kjölfarið með samkeppnir og í framhaldinu sameinuðu Landsnet og Statnett krafta sína.

Þrjár nýjar gerðir mastra
Markmiðið var að búa til ný háspennumöstur sem meiri sátt gæti orðið um en þau núverandi. Þróunarvinnan hefur verið tímafrek og kostnaðarsöm og hefur hvort fyrirtæki um sig einbeitt sér að nokkrum mastragerðum, bæði til notkunar á ákveðnum köflum og lengri línuleiðum eða meira sem n.k. skúlptúr. Upplýsingum um framvindu hafa fyrirtækin deilt hvort með öðru.

  • „Ballerínan“ er fyrst í röð þriggja mastra sem Landsnet hefur unnið með í kjölfar hugmyndasamkeppninnar frá 2008. Það var þróað var í samstarfi við Hornsteina arkitekta og ARA Engineering og er prufumastur komið til landsins. Reynslan af uppsetningu og notkun þess verður notuð til úrbóta áður en framleiðsla hefst á þeim möstrum sem þarf í nýju flutningslínurnar í Hafnarfirði.
  • „Fuglinn“ er önnur gerð mastra úr samkeppninni sem er langt komin. Það er stagað mastur með tveimur rörum og þverslá eins og fuglsvængur að lögun. Fuglinn er þróaður í samstarfi við Hornsteina arkitekta og Eflu verkfræðistofu og er hönnun mastursins lokið. Framleiðsla prufumasturs er á lokastigi og er þess vænst til landsins á næstu vikum.
  • „Risinn“ (Land of Giants) er mastragerð úr samkeppninni frá 2008 sem hefur einnig verið unnið áfram með. Hún er þróuð í samstarfi við bandarísku arkitektastofuna Choi+Shine og Eflu verkfræðistofu. Risinn vakti mikla athygli á sínum tíma og fær Landsnet enn í dag töluvert af fyrirspurnum um hana. Forhönnun risans er lokið og búið er að leysa ýmis burðarfræðileg vandamál en hugmyndir eru uppi um að láta hann standa sem skúlptúr við fjölfarinn veg. Næst á dagskrá er því að velja mastrinu stað og ljúka deilihönnun.

Á sama hátt hefur Statnett einnig unnið að þróun nokkurra nýrra mastragerða einkum úr stáli, en einnig er verið að skoða bæði ál og koltrefjar sem byggingarefni. Hefur fyrirtækið nú samið um prufuframleiðslu á koltrefjamastri og fylgist Landsnet vel með þeirri þróun.

Mikil umskipti hafa einnig átt sér stað í hönnun og þróun tengivirkja Landsnets á undanförnum árum. Í kjölfar hönnunarsamkeppni eru nú öll ný tengivirki Landsnets yfirbyggð og útlit samræmt. Þannig falla þau betur að umhverfinu og draga úr sjónrænum áhrifum.

Meiri sátt
Þó svo að lagning jarðstrengja muni aukast í framtíðinni verða háspennumöstur og loftlínur áfram mikilvægur hluti af flutningskerfi raforku hér á landi sem annars staðar. Uppsetning Ballerínu-mastursins á næstu vikum og Fuglsins í kjölfarið markar ákveðin tímamót í margra ára nýsköpunar- og þróunarstarfi starfsfólks Landsnets og þeirra fjölmörgu aðila sem lagt hafa fyrirtækinu lið.

Uppbygging raforkuflutningskerfisins þarf að eiga sér stað svo öll íslensk heimili og fyrirtæki eigi aðgang að öruggu og nægu rafmagni óháð búsetu. Það er okkar von að þessi þróun í möstrum og áhersla á bætta ásýnd verði jákvætt innlegg í þá sátt sem verður að nást um uppbygginguna.

Aftur í allar fréttir