Sýnum aðgæslu til fjalla


21.02.2014

Framkvæmd

Landsnet beinir þeim tilmælum til útivistarfólks og annarra sem eru á ferð nærri háspennulínum til fjalla og á hálendinu að fara varlega. Fannfergi er víða svo mikið að hættulega stutt er upp í línuleiðarana. Verst er ástandið á norðanverðum Vestfjörðum og í öryggisskyni hefur spenna verið tekin af Bolungarvíkurlínu 1.

Truflanir og bilanir vegna snjóa og ísingar hafa verið tíðar í flutningskerfi Landsnets allt frá jólum. Einna verst hefur ástandið verið á Norðausturlandi og Vestfjörðum þar sem mikið fannfergi hefur oftar en ekki gert netrekstrarmönnum Landsnets erfitt um vik við bilanaleit og viðgerðir. 

Háspenna – lífshætta!
Eftir skoðun á Bolungarvíkurlínu 1 milli Breiðadals og Bolungarvíkur í vikunnu kom í ljós að aðstæður á línuleiðinni geta verið stórhættulegar útivistar- og ferðafólki. Línan hefur ekki verið í rekstri frá því um jól en þar er nú víða minna en mannhæð upp í leiðara vegna fannfergis og sumstaðar eru þeir hreinlega á kafi í snjó. Mikil ísing er einnig á línunni sem getur gert það að verkum að bæði leiðarar og möstur verða nær ósýnileg þeim sem leið eiga um svæðið og slysahætta því mikil. Því er skíða- og vélsleðafólk hvatt til að fara með gát á þessum slóðum, sem og aðrir.

Aðeins betra ástand er á línuleið Tálknafjarðarlínu 1, milli Tálknafjarðar og Mjólkárvirkjunar í botni Arnarfjarðar. Hún er í rekstri en á nokkrum stöðum er orðið hættulega stutt upp í línuleiðarana og því hvetur Landsnet alla sem leið eiga þar um að sýna aðgæslu og fara að öllu með gát. 

Þessum viðvörunarorðum er einnig beint til allra sem stunda ferðalög og útivist. Þeir eru hvattir til að sýna aðgæslu til fjalla þar sem fannfergi kann að hafa skapað hættuástand við háspennumannvirki - eins og nú er á norðanverðum Vestfjörðum.

Myndirnar eru teknar í vikunni og sýna fannfergið sem er á Bolungarvíkurlínu 1 (leiðari á kafi í snjó og mikil ísing á mastri og leiðurum) og á Tálknafjarðarlínu 1 (minna en mannhæð upp í leiðarana).

Aftur í allar fréttir