Nýtt tengivirki Landsnets innan við Ísafjarðarbæ er nú óðum að taka á sig mynd. Steypuvinnu er lokið, búið er að setja upp límtrésbita og vinna hafin við að ganga frá þakeiningum.
Miðað er við að húsið verði tilbúið fyrir uppsetningu háspennubúnaðar um miðjan febrúar á næsta ári, prófanir á búnaði geti hafist í maí og að tengivirkið verði tekið í gagnið í júní 2014. Samhliða framkvæmdum við tengivirkið lagði Landsnet tvo 600 metra 66 kV jarðstrengi meðfram Skutulsfjarðarbraut, frá Seljalandi að tengivirkinu og færði Ísafjarðarlínu 1, 66 kV jarðstreng, úr hlíðinni fyrir ofan byggðina niður að Skutulsfjarðarbraut.
Verkið er unnið í samvinnu við Orkubú Vestfjarða og er áætlaður heildarkostnaður við það um hálfur milljarður króna. Samið var við Vestfirska verktaka um byggingarframkvæmdir og Gámaþjónusta Vestfjarða hefur verið verktaki við strenglagnir, bæði fyrir Landsnet og Orkubú Vestfjarða.
Myndir: Staða framkvæmda 22. nóvember 2013.