Við hjá Landsneti erum í umhverfi þar sem kröfur eru sífellt að aukast, ekki bara tæknilega heldur líka þegar kemur að þjónustu og samtali og þar viljum við alltaf gera betur í dag en í gær.
Síðustu vikur hefur flest okkar starfsfólk á höfuðborgarsvæðinu verið að vinna heima og aðeins þau sem vinna í stjórnstöð og netrekstri verið í húsinu ásamt Önnunum okkar sem eru framlínunni i þjónustuverinu okkar á Gylfaflöt.
Þær Anna Katrín og Anna Sigrún hafa skipt með sér vikunum og í dag stendur Anna Katrín vaktina og okkur fannst auðvitað tilvalið að slá á þráðinn til hennar og taka púlsinn á lífinu á Gylfaflötinni. Hún segir gott að koma til að baka úr páskafríi þrátt fyrir að það sé frekar skrítið að sjá svona fáa í húsinu.
„Ég er búin að vera í mjög góðu páskafríi, framlengdi það um nokkra daga. Núna tekur því rútínan aftur við með tilheyrandi einveru á Gylfaflötinni. Ég og Anna Sigrún samstarfskona mín og félagi hérna í móttökunni höfum verið að skipta með okkur dögunum. Ég er mjög fegin því að fá aðhaldið sem fylgir því að fá að mæta á Gylfaflötina og svo skemmir auðvitað ekki fyrir að fá alltaf heitan hádegismat“ segir Anna en mötuneytið okkar á Gylfaflötinni er rómað fyrir frábæran mat. Hefur starfsfólk mötuneytisins gert kraftaverk undanfarnar vikur en starfsemin þar er líka með mjög breyttu sniði og þeir sem eru í húsi koma á ákveðnum tímum í mat þannig að það séu aldrei margir í mat á sama tíma.
Þó húsið sé lokað þá erum við til taks við símann og sinnum erindum sem ekki er hægt að sinna heiman frá segir Anna Katrín og segir daglega fjarfundi með teyminu sínu skipta sköpum.
„Daglegir fjarfundir með teyminu mínu hafa gengið vel og finnst mér þeir skipta miklu máli við að viðhalda tengslunum. Tíminn hefur verið nýttur til að fara í ýmis umbótaverkefni. Við í móttökunni aðstoðum með allskyns verkefni fyrir sviðið okkar ásamt því að sinna almennum móttökustörfum. Það hefur því verið ágætis vinnufriður að vinna þau verkefni þegar móttaka gesta hefur verið lokuð. Það er pínu undarlegt að upplifa Gylfaflötina svona tóma því vanalega er mikil traffík í móttökunni en sem betur fer sér maður nokkur andlit á dag“ segir Anna Katrín sem hlakkar til þegar húsið fyllist aftur af lífi með hækkandi sól.