Ef ekki verður farið í frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi mun það á næstu árum leiða af sér ýmsa erfiðleika hjá raforkunotendum og kosta þjóðfélagið milli þrjá og 10 milljarða króna á ári – eða á bilinu 36 – 144 milljarða króna næsta aldarfjórðunginn samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu sem unnin var fyrir Landsnet.
Í skýrslunni er reynt að meta hversu mikils virði það er fyrir þjóðfélagið að halda áfram uppbyggingu raforkukerfisins svo hægt sé að anna álagsaukningu næstu ára og áratuga hringinn í kringum landið. Höfundar hennar eru Jón Vilhjálmsson hjá EFLU verkfræðistofu og Friðrik Már Baldursson prófessor við Háskólann í Reykjavík. Aðferðafræði þeirra byggist í meginatriðum á að bera annars vegar saman óbreytt núverandi raforkukerfi - með stöðugt meiri takmörkunum á flutningi raforku þegar fram líða stundir - og hins vegar kerfi sem er án flutningstakmarkana. Kostnaðarmismunur þessara tveggja kosta er síðan reiknaður og talan sem kemur út úr þeim reikningum er sá þjóðhagslegi ávinningur sem uppbygging öflugs flutningskerfis hefur í för með sér.Kostnaður frekar vanmetinn en ofmetinn
Reynt var að meta til fjár sem flesta þætti er lúta að afhendingu raforku og skipta máli við uppbyggingu flutningskerfisins en að mati höfundanna er líklega frekar um vanmat að ræða á kostnaði þjóðfélagsins en ofmats því einungis voru teknir með þeir þættir sem þekktir eru með nokkurri vissu. Í skýrslunni er eingöngu horft á almenna markaðinn og reiknað með óbreyttri notkun orkufreks iðnaðar, í samræmi við raforkuspá orkuspárnefndar. Meðal kostnaðarþátta sem mat var lagt á má nefna:
- Tjón notenda vegna skertrar afhendingar þar sem flutningskerfið annar ekki notkun.
- Tjón notenda vegna skertrar afhendingar raforku til að koma í veg fyrir spennuvandamál.
- Tjón orkuframleiðenda vegna skerðingar á framleiðslu virkjana vegna takmarkaðrar flutningsgetu.
- Tjón notenda vegna rekstrartruflana.
- Kostnaður allra við aukin töp í kerfinu vegna mikillar lestunar flutningsvirkja.
Ekki er fjallað í skýrslunni um kostnað við að halda við núverandi kerfi, byggðalínunni sem er rúmlega 30 ára gömul, en ef sá kostnaður væri tekinn með myndi ávinningur af uppbyggingu kerfisins aukast. Þá vantar inn í fjárhagslega matið ýmsa þætti sem erfitt er að verðmeta, s.s. áhrif á byggðaþróun ef ekki verður hægt að anna auknu álagi á afmörkuðum landsvæðum, sem og mikilvægi öflugs flutningskerfis ef alvarlegar náttúruhamfarir eiga sér stað.
Þjóðhagslegt tap 3-10 milljarðar króna á ári
Það er niðurstaða skýrsluhöfunda að heildartjón, eða kostnaður þjóðfélagsins geti numið á bilinu 36 – 144 milljörðum til ársins 2040, ef flutningskerfi raforku verði ekki eflt - heldur haldist óbreytt og anni ekki notkuninni í landinu. Skýringar á þessa mikla hlaupi í kostnaðarmatinu eru fyrst og fremst mismunandi forsendur um þróun raforkunotkunar, út frá lág-, mið- og háspá orkuspárnefndar, þar sem skýrsluhöfundar telja miðtilvikið, um 86 milljarða tjón til 2040, sýna líklegustu þróunina. Tjón á ári, eða meðalkostnaður, gæti þá verið á bilinu 2,7 – 10 milljarðar króna.
Heildarkostnaður til 2040 |
Lágtilvik Mkr. |
Miðtilvik Mkr. |
Hátilvik Mkr. |
Núvirði kostnaðar umfarm fullkomið kerfi |
36.000 |
86.000 |
144.000 |
Meðalkostnaður á ári |
2.700 |
6.100 |
10.000 |
Skipting tjóns eða kostnaðar þjóðfélagsins vegna takmarkana í flutningskerfi raforku ef það yrði ekki byggt frekar upp.
Óbreytt flutningskerfi mun að mati skýrsluhöfundanna hamla vexti raforkunotkunar. Þjóðfélagslegt tap eða kostnaður vegna takmarkana í flutningskerfinu muni vaxa hratt með auknu álagi á raforkukerfið. Það muni m.a. valda minni hagvexti en yrði ef ekki væru takmarkanir í flutningskerfinu og hafa áhrif á byggðaþróun. Telja skýrsluhöfundar ljóst að ef ekki verði farið í frekari uppbyggingu raforkuflutningskerfis landsins muni það leiða af sér ýmsa erfiðleika fyrir raforkunotendur á næstu árum svo sem:
- Aukna orkuvinnslu með olíu svo sem í fiskimjölsverksmiðjum og hjá kyntum hitaveitum.
- Aukna notkun dísilstöðva við raforkuvinnslu.
- Tíðara rafmagnsleysi hjá notendum en nú er.
- Lakari hagkvæmni nýrra virkjana en verið hefur vegna aukinna takmarkana á mötun inn á flutningskerfið.
- Aukin töp við flutning raforku.
- Að ýmsir virkjanakostir munu ekki koma til greina þar sem flutningskerfið getur ekki flutt orku frá þeim.
- Frekari flutninga fólks frá dreifbýlum svæðum á landinu til stærstu þéttbýlissvæðanna vegna takmarkaðs aðgengis að raforku.
- Að verð á raforku muni líklega hækka þar sem flutningstakmarkanir torvelda samkeppni.
Nánari upplýsingar veita skýrsluhöfundar:
Jón Vilhjálmsson, rafmagnsverkfræðingur og sviðstjóri hjá EFLU verkfræðistofu, í síma 665 6139.
Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, í síma 825-6396.
Skýrsla: Þjóðhagslegt gildi uppbyggingar flutningskerfis Landsnets
Umfjallanir:
visir.is/viðbrögð iðnaðarráðherra