Þörf á víðtækri sátt um farmtíð flutnings raforku


13.10.2015

Framkvæmd

Stjórnarformaður Landsnets, Geir A. Gunnlaugsson, hvetur til víðtækrar samfélagssáttar um framtíðarfyrirkomulag raforkuflutninga og uppbyggingu meginflutningskerfis raforku í grein í Morgunblaðinu um helgina og við birtum í heild sinni hér:

Undanfarin misseri hefur verið mikil umræða, oft á tíðum hörð og óvægin, um uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi og hvaða leiðir eigi að velja í þeim efnum. Fyrir liggur að meginflutningskerfi raforku er komið að þolmörkum ef undan er skilið suðvesturhorn landsins, þar sem notendur búa að flutningsmannvirkjum sem reist hafa verið í tengslum við uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Byggðalínan í kringum landið, sem lokið var að reisa fyrir 30 árum og átti að tryggja öllum landsmönnum jafnan og öruggan aðgang að raforku, er hins vegar fulllestuð í dag sem teflir í tvísýnu afhendingaröryggi meginflutningskerfisins. Því er orðið mjög brýnt að styrkja flutningskerfið, þannig að áfram verði hægt að mæta aukinni eftirspurn eftir öruggri raforku um allt land. Takmarkanir á orkuafhendingu og afhendingaröryggi er farið að standa í vegi fyrir almennri atvinnuuppbyggingu á mörgum stöðum á landinu og þar með byggðaþróun.

Raforka er ein af grunnstoðum nútíma þjóðfélags, heimili og framleiðslufyrirtæki þurfa raforku í auknu mæli. Ef við ætlum að minnka útblástur mengandi efna hvort það er frá fiskimjölsverksmiðjum eða bílum þá þurfum við raforku, ný hótel þurfa raforku og þannig mætti lengi telja. Lagning flutningalína fyrir raforku, hvort sem það er loftlínum eða jarðstrengur, veldur vissulega umhverfisáhrifum, hjá því verður ekki komist. Við þurfum að vega og meta þá kosti sem til greina koma og ákveða hvaða kost við veljum til að mæta þessum auknu þörfum og veldur minnstri röskun.

Lögum samkvæmt ber Landsneti að byggja upp flutningskerfi raforku á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Félagið hefur kappkostað að sinna þeim lagalegu skyldum allt frá stofnun þess fyrir 10 árum en andstaða á undanförnum árum við uppbyggingaráform á afmörkuðum svæðum hefur sett þar strik í reikninginn. Það er von Landsnets að breytingar á regluverki raforkulaga sem tóku gildi í vor, þar sem kerfisáætlun félagsins hlaut lagalegan sess, og samþykkt þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína geti leitt til samfélagslegrar sáttar um framtíðaruppbyggingu raforkukerfisins, landi og þjóð til heilla.

Tveir meginvalkostir
Í kerfisáætlun Landsnets, sem samkvæmt lagabreytingunni skal nú leggja fram árlega og hljóta samþykki Orkustofnunar, er sett fram langtímaáætlun félagsins um uppbyggingu kerfisins tíu ár fram í tímann. Jafnframt fylgir nú umhverfisskýrsla kerfisáætluninni þar sem lagt er mat á valkosti út frá umhverfislegum sjónvarmiðum sem taldir eru koma til greina við uppbyggingu kerfisins.

Í kerfisáætlun 2015-2024, sem búin er að vera í kynningar- og umsagnarferli undanfarnar vikur, eru settir fram tveir meginvalkostir um uppbyggingu raforkuflutningskerfisins á næstu árum. Þeir fela annars vegar í sér lagningu háspennulínu yfir miðhálendið eða hinsvegar endurbyggingu núverandi byggðalínu. Undir þessum tveimur aðalvalkostum eru svo lagðar til mismunandi útfærslur með blöndu af nýjum línum og spennuhækkun á eldri línum, þar sem nýjar línur geta ýmist verið loftlínur eða jarðstrengir, allt eftir aðstæðum. Allt er þetta vandlega tíundað í Kerfisáætluninni og fylgigögnum hennar sem hægt er að nálgast á vef Landsnets og hjá Skipulagsstofnun.

Sérstaða íslenska raforkukerfisins takmarkar notkun jarðstrengja
Deilt hefur verið á Landsnet fyrir að miða uppbyggingu kerfisins um of við þarfir stóriðju þótt staðreyndin sé sú að núverandi þörf á styrkingu flutningskerfisins sé fyrst og fremst vegna almennrar aukinnar raforkunotkunar. Efast hefur verið um þörf fyrir nýjar línur og krafan um jarðstrengi í stað loftlína hefur verið áberandi. Í umræðunni um val milli jarðstrengja og loftlína hefur oft gleymst að Landsneti voru til skamms tíma settar mjög skýrar hagkvæmniforsendur í raforkulögum um uppbyggingu flutningskerfisins en stefnumörkun stjórnvalda frá í vor hefur nú rýmkað þær forsendur.

Oft er gefið í skyn að þær tölur sem Landsnet birtir um mun á kostnaði við lagningu loftlínu og jarðstrengs séu rangar, verð á jarðstrengjum hafi lækkað mikið á undanförnu og ekki sé tekið tillit til þess. Af því tilefni hefur Landsnet nýlega látið gera ýtarlega úttekt á mismun á kostnaði við annars vegar byggingu loftlínu og hins vegar lagningu jarðstrengja, miðað við nýjustu upplýsingar um verð jafnframt því að tekið er tillit til aðstæðna í náttúru landsins og eiginleika íslenska flutningskerfisins.

Þróun í framleiðslu á jarðstrengjum hefur vissulega verið hröð á undanförnum árum. Hún endurspeglast í lækkun framleiðslukostnaðar og jafnframt hefur samkeppni framleiðenda leitt til lækkunar á verði. Þannig eru kostnaðratölur í dag allt aðrar en fyrir bara hálfum áratug eða svo. En auk verðsins á strengnum þarf einnig að taka tillit til kostnaðar við lagningu strengjanna og taka þá mið af íslenskum aðstæðum sem of á tíðum eru verulega frábrugðnar aðstæðum erlendis. Til þess að úttekt Landsnets væri byggð á sem trúverðugustum upplýsingum var hún unnin í samvinnu og samráði við aðila bæði í Danmörku og Frakklandi með mikla reynslu í jarðstrengjamálum. Niðurstöður úttektarinnar sýna að miðað við íslenskar aðstæður og sérstöðu íslenska flutningskerfisins eru því miður verulegar takmarkanir á því hve langa jarðstrengi er hægt að leggja á einstökum hlutum flutningskerfisins. Einnig er þar að finna mat á því við hvaða aðstæður í íslenskri náttúru lagning jarðstrengja fer vel og hvar ekki. Það er von okkar að þessi vinna nýtist við undirbúning að frekari uppbyggingu og styrkingu íslenska flutningskerfisins. Hvet ég alla sem vilja fjalla um málið á málefnalegum grunni að kynna sér efni og niðurstöðu þessarar skýrslu.

Ræðum málin á grunni staðreynda
Það er von okkar að allt þetta muni skili sér í málefnalegri umræðu en áður um val á milli loftlína og jarðstrengja. Við hvetjum sem flesta til að kynna sér kerfisáætlun Landsnets og fylgigögn hennar þannig að umræðan um uppbyggingu raforkukerfisins geti farið fram á grunni staðreynda en ekki órökstuddra fullyrðinga eins og því miður hefur viljað brenna við. Í hita leiksins hafa fallið stór orð um starfsmenn og stjórnendur Landsnets. Hafa þeir meðal annars verið sakaðir um að ganga erinda stórfyrirtækja á kostnað almennings og að setja fram villandi upplýsingar um þá kosti sem til greina koma. Slíkur málflutningur er engum til sóma og stuðlar ekki að farsælli lausn þeirra verkefna sem sátt þarf að nást um. Ég leyfi mér að fullyrða að starfsmenn og stjórnendur Landsnets vinna bæði faglega og af miklum heilindum að þeim mikilvægu verkefnum sem fyrirtækið sinnir, í þágu allra landsmanna.

Hvet ég alla sem þannig hafa talað til að láta nú af slíkum málflutningi og taka frekar þátt í faglegri og málefnalegri vinnu byggðri á bestu fáanlegum upplýsingum um þetta mikilvæga málefni. Landsnet vill leggja sitt af mörkum til að umræða á slíkum grunni eigi sér stað enda er það einlægur vilji fyrirtækisins að sem víðtækust samfélagssátt skapist um framtíðarfyrirkomulag raforkuflutninga og uppbyggingu meginflutningskerfisins.
Aftur í allar fréttir