Tíminn, verkefnin og heimspekihundurinn #landsnetslífiðátímumCovid


22.10.2020

Framkvæmd

„Góðan daginn, getur þú beðið aðeins” sagði Einar S. Einarsson framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs þegar við náðum á hann í morgun til að eiga við hann morgunbollaspjallið um lífið hjá Landsneti þessar vikurnar en kröfuharðasti vinnufélagi hans þessa dagana, heimsspekihundurinn Plato, þurfti að eiga við hann eitt orð.

Þegar Einar kemur aftur, þá segir hann að hann hafi stúderað ágætlega áhrif fyrri bylgju Covid á starfið og fleira. Til dæmis kom í ljós að fundum fjölgaði mikið í heimavinnunni og í kjölfarið minnkaði hreyfing yfir daginn. Reyndar svo mikið að það munaði um 70% á dæmigerðum skrefafjölda fyrir Covid og í heimavinnunni. 

En nú er staðan önnur, þökk sé Plato, átta mánaða Rough Collie hvolpi. Plato, eins og aðrir heimspekingar, heldur honum við efnið og er nú þegar orðinn vinsælasti íbúinn í hverfinu og algjör stjarna meðal barnanna í skólanum hér nálægt. Þau þekkja hann öll með nafni og heilsa alltaf upp á hann þegar við löbbum framhjá segir Einar hlægjandi. 

Einar segir heimavinnuna hafa heilt yfir gengið vel en stundum þurfi að hliðra til og skjótast á milli staða með fartölvuna, eftir því hver á heimilinu þarf að nota herbergi til að funda og hver þarf að ræða við heimspekihundinn.

„Í vor tók ég saman ýmiskonar tölfræði tengdri heimavinnunni, hvaða áhrif hún hafði, og það kom í ljós að  fundum fjölgaði til muna, spjallið á Workplace jókst, skrefum fækkaði en svefninn varð betri, kannski af því að maður var svo þreyttur eftir hreyfingarlausan dag við skjáinn.“

Í dag segist hann vera búinn að aðlagast heimavinnunni betur en í vetur og búinn að koma sér upp rútínu en vinnudagarnir hafa lengst.

 „Rútínan er að fara út með hundinn á morgnanna áður en ég sest við tölvuna og við tekur oftast dagur með mörgum fundum. Vinnudagurinn hefur lengst af því að tölvan er alltaf við höndina og samskipti ganga aðeins hægar fyrir sig en áður. Það  hefur  samt komið mér á óvart hvað maður er fljótur að aðlagast þessu. Hingað til hef ég reynt að aðskilja á milli vinnu og einkalífs eins og hægt er, farið til dæmis á vinnustaðinn til að vinna aukavinnu og þá verið ekki í vinnu þegar ég heima. Þetta er allt gjörbreytt með heimavinnunni. Aðlögunarhæfnin er eiginlega ótrúleg hjá okkur og við hjá Landsneti höfum verð fljót að ná taktinum í að halda verkefnum okkar gangandi og um leið ljósunum á landinu logandi.“

Spurður um hlutverk stjórnandans í rafheimum segir hann það allt öðruvísi en í raunheimum,  og meira krefjandi.

„Í mínum huga er hlutverk stjórnandans fyrst og fremst að hafa áhrif á aðra til góðra verka og árangurs og það gerir maður aðallega með samskiptum. Samskipti byggjast fyrst og fremst á trausti og það er auðvitað meira krefjandi að hafa áhrif og skapa traust í gegnum fjarfundi en maður gerir sitt besta til að láta þetta ganga. Við vitum að þetta verður ekki endalaust en vitum ekki hvernig þetta verður þegar við komum til baka aftur en ég held að það verði meiri fjölbreytileiki í framtíðinni hjá fólki þegar kemur að vinnuumhverfinu. Það hefur verið mikill lærdómur í þessu öllu og við sem hópur erum orðin betri í að hugsa út fyrir boxið en áður“ segir Einar og tekur heimsspekihundurinn Plato auðvitað undir það.

 

Aftur í allar fréttir