Umræðan um flutningskostnað raforku - stöðugleiki, skilvirkni og gagnsæi


29.01.2021

Framkvæmd

Við hjá Landsneti fögnum allri umræðu um flutningskostnaðinn og gjaldskránna okkar og teljum það gott að umræðan um gjaldskrármálin séu gagnsæ, opin og byggð á staðreyndum.

Við höfum lengi verið á þeirri skoðun að þörf sé á meira gagnsæi á raforkumarkaði og höfum meðal annars verið að vinna að stofnun heildsöluraforkumarkaðs með gagnsæi og eðlilegri verðmyndun á raforku að leiðarljósi. 

Í ljósi umfjöllunar um flutningskostnað, þá er rétt að hafa í huga að flutningskostnaður samanstendur af tveimur þáttum.  Annars vegar kostnað við flutning raforku sem flutningsgjaldið endurspeglar og svo kostnaður við kaup á kerfisþjónustu og  þeirrar orku sem tapast í kerfinu.

Kerfisþjónusta og orkukaupin er þjónusta og vara sem Landsnet kaupir af orkusölum. Öllum orkusölum er frjálst að taka þátt og bjóða í þjónustuna og geta haft talsverðar tekjur af henni. Landsnet tekur einungis 2% fyrir umsýslu af þessari þjónustu. Ekki er rétt að tengja þennan kostnað beint við gjald Landsnets vegna flutnings raforku. Meðalflutningsgjald til stórnotenda er á bilinu 4,7 til 5,9 USD/MWst, þar sem stærstu notendurnir eru nær neðri tölunni. Kostnaður vegna kerfisþjónustu og orkutaps er á bilinu 1,0-1,2 USD/MWst.

Landsnet vinnur að því alla daga að auka skilvirkni og ná að skila hagkvæmni í flutningsgjaldi, sem er í takti við markmið fyrirtækisins um að halda gjaldskrá stöðugri til lengri tíma. Eins og sjá má á myndinni þá hafa flutningsgjöld ekki fylgt breytingum á verðlagi, sem hefur skilað sér í raunlækkun flutningsgjalda til viðskiptavina.

Þegar flutningsgjöld Landsnets eru borin saman við sambærileg gjöld í Evrópu,  kemur í ljós að við erum undir meðaltali í samanburðalandanna. Það er áhugaverð niðurstaða í ljósi þess að þessi lönd eru samtengd og mun þéttbýlli en Ísland. Nýting flutningsmannvirkja í samanburðarlöndum okkar er þar af leiðandi betri en hér á Íslandi. Við hjá Landsneti erum mjög meðvituð um hlutverk okkar á raforkumarkaði og hugsum til langs tíma við ákvarðanatöku. Við leggjum áherslu á stöðugleika og beitum áhættustýringu við okkar samninga og takmörkum áhættu. Þannig deilum við til dæmis ekki áhættu með okkar viðskiptavinum af breytilegu afurðaverði hjá þeim.

Aftur í allar fréttir