Undirbúningur fyrir aukna rafmagnsflutninga til Vestmannaeyja stendur nú yfir hjá Landsneti og fleiri aðilum í kjölfar lagningar Vestmannaeyjastrengs 3 í fyrra. Hann er gerður fyrir 66 kV spennu en var til að byrja með tengdur á 33 kV spennu, þannig að hægt er að auka flutninginn, án þess að leggja þurfi nýjan streng.
Samningar um að auka rafmagnsflutning til Vestmannaeyja í ársbyrjun 2016 eru nú í undirbúningi en til að byrja með er fyrst og fremst verið að horfa til þess að fiskimjölsverksmiðjurnar í Eyjum geti skipt úr olíu- yfir á rafmagnskatla. Það myndi hafa í för með sér umtalsverðan rekstrarsparnað, auk þess sem það er umhverfislega mun betra að nota endurnýjanlega orku.Vinna er þegar hafin við hönnun nýrrar aðveitustöðvar HS Veitna í Eyjum, með nýjum rofum og spennum, og er ráðgert að reisa hana á næsta ári. Landsnet undirbýr einnig byggingu ný tengivirkis í Eyjum og hækkun rekstrarspennu á nýja strengnum. Jafnframt er í bígerð hjá Landsneti að ráðast í styrkingar á flutningskerfinu á Suðurlandi svo það geti annað fyrirsjáanlegri álgasaukningu.